Þjóðtrú Íslendinga hefur í gegnum tíðina verið rík af allskyns sögnum af furðufyrirbærum og yfirskilvitlegum hlutum sem gengu manna á milli. Sagnirnar voru stundum sagðar til skemmtunar og stundum sem víti til varnaðar. Þar má nefna draugasagnir um móra og skottur sem ásóttu menn sem ekki komu þeim til aðstoðar í lifanda lífi. Ekki má heldur gleyma sögnum um huldufólk og álfa í steinum sem voru ýmist vinveittir eða fjandsamlegir fólki. Á 18. öld þegar upplýsingin kom til skjalanna komu fram efasemdarmenn sem sögðu að þjóðsögur stönguðust ekki aðeins á við vísindin heldur væru hreinlega heimskulegar. Þó Íslendingar upp til hópa trúi kannski ekki efni þjóðsagnanna í dag virðast ýmsir vera opnir fyrir möguleikanum á að það sé eitthvað meira á bakvið tilveruna en við sjáum og heyrum. Leifar af þjóðtrúnni hafa fylgt okkur inn í nútímann og skýrasta dæmið um það er þegar álfatrú hefur áhrif á framkvæmdir ríkisstofnana eins og Vegagerðarinnar. Í þjóðsagnasöfnum Íslendinga má finna sagnir um galdramenn en eitt af því sem náði ekki að festa rætur í íslenskri sagnahefð voru sögur af nornum og trúin á mátt þeirra. Í þessari grein verður sagt frá nornatrú á Englandi og hvernig birtingarmynd hennar náði að heltaka heilt þorp á 20. öldinni. Nornirnar í Canewdon
Veturinn 1959-1960 rannsakaði Maple þorp í Essex sem heitir Canewdon og var alræmt fyrir nornatrú og galdra. Hafði þessi átrúnaður verið við lýði í hundruð ára en hafði að mestu lagst niður þegar Maple hóf rannsóknir sínar. Hann fann eitt dómsmál um meinta galdra frá 16. öld. Ekkja í þorpinu var dæmd til dauða fyrir að leggja álög á ungbarn sem dó. Konan var þó á endanum sýknuð (Maple, 1960). Nornir í þvottabalaTil eru á prenti nokkrar þjóðsögur um nornirnar í Canewdon og segja þær frá ýmsu sérkennilegu. Í einni sögunni segir að á meðan kirkjuturninn stendur verða sex nornir í þorpinu. Í hvert sinn sem steinn fellur frá turninum mun norn deyja og önnur koma í hennar stað. Ein af nornunum sex verður eiginkona prestsins og önnur eiginkona slátrarans. Þeir sem ganga í kringum kirkjuna á miðnætti verða þvingaðir til að dansa við nornirnar. Ein sagan segir frá því að norn hafi farið yfir ána, stolið bjöllu úr kirkjunni og farið aftur yfir ána í þvottabala og notað fjaðrir sem árar. Maður einn kom auga á nornina og þá lagði hún á hann álög að hann skyldi minnislaus verða um þennan atburð. Það var ekki fyrr en maðurinn heyrði í kirkjubjöllum löngu síðar að atburðurinn rifjaðist upp fyrir honum (Maple, 1960). Mynd nr. 2. Teikning af kirkjunni í Canewdon Maple gaf sig á tal við elstu íbúana sem enn mundu þann tíma þegar norna- og galdratrúin var við lýði. Voru frásagnir um fólk sem sáu nornir á lóð kirkjunnar og gátu þær lamað fólk með augnaráðinu einu saman. Stundum sáust þær sigla á ógnarhraða í þvottabala eftir ánni og stundum taldi fólk sig hafa heyrt þytinn í loftinu þegar þær flugu framhjá. Nornir birtust stundum í líki hvítrar kanína og var talið stórhættulegt að snerta þær. Til að koma í veg fyrir að börn yrðu fyrir álögum norna voru börnin látin dansa í kringum kirkjuna. Viss svæði í þorpinu fengu nöfn tengd nornum eins og The Witch‘s Field. Á akrinum átti norn að vera grafin. Engin uppskera vex við gröfina en þar er urmull af froskum. Nornin átti að hafa breytt sér í frosk og ætlað að endurheimta krafta sína í gegnum aðra froska sem kæmu til hennar (Maple, 1960). Hvítu mýsnar
Önnur kona trúði því að amma hennar væri norn sem hefði lagt á hana álög svo að hún veiktist illa. Amma hennar á að hafa dregið fram hvíta mús til að sýna henni og hafi það staðfest grun hennar. Hvítar mýs voru taldar ein helsta uppspretta galdra og notaðar til að ógna fólki. Mýsnar gengu manna á milli í fjölskyldum og fékk viðtakandi músarinnar þar með nornakraftinn. Ef eitthvað fór úrskeiðis hjá fólki í þorpinu var gjarnan talað um „að nú væri hvítu mýsnar komnar á stjá...“ Ef það gekk illa í pílukasti hjá mönnum þá muldruðu þeir: „Hvítar mýs.“ Ýmis önnur hjátrú viðgekkst í Canewdon eins og að setja hnífa eða skæri undir dyramottur til að meina nornum inngöngu og á ein frúin í þorpinu að hafa þverneitað að stíga yfir þröskuldinn. Það sannaði fyrir íbúum að hún hafi þar með verið norn. Ýmis ráð voru notuð til að rjúfa álög norna t.d. að fylla krukku af þvagi, tánöglum og títuprjónum. Krukkan var svo hituð og átti nornin að upplifa mikinn sársauka. Ef krukkan sprakk dó nornin (Maple, 1960). Hjátrú í hverri kynslóðHið yfirskilvitlega getur búið yfir sterku aðdráttarafli og vakið upp mikla forvitni. Í augum sumra eru sögur sem þessar dægrastytting ein meðan aðrir trúa á hið dularfulla í tilverunni. Skal því tilvist nornanna fá að liggja milli hluta að sinni. Svo er það mannlegi þátturinn í þessu. Í greininni segir að íbúar þorpsins hafi lengi verið töluvert einangraðir, þótt þröngsýnir og útilokað aðkomumenn (Maple, 1960). Þjóðsögur af nornum tíðkuðust lengi í Canewdon og vegna einangrunar óx og dafnaði ýmis hjátrú með hverri kynslóð. Nornirnar voru ekki bara óhugnanlegt fyrirbæri sem þorpsbúar þurftu að vara sig á. Með tímanum þurftu þorpsbúar að vara sig á hvor öðrum. Hver sem er gat verið norn. Vafalaust hefur þótt hentugt að nýta sér það, t.d. í nágrannaerjum og fjölskyldudeilum. Má ætla að sumar konurnar hafa jafnvel gengið upp í því að vera meintar nornir og það þótt einskonar stöðutákn. Fólkið í Canewdon lifði og hrærðist í boðum og bönnum, hefðum og hjátrú langt inn í 20. öldina. Viðmælendur Maple voru aldir upp í þessum hefðum og líklegt að afkomendur þeirra hafi fengið smjörþefinn af þeim líka. Það er merkilegt að sjá hvernig þessi galdratrú mótaði heilt samfélag og orðræðu í hundruð ára. Forvitnilegt væri að vita hvort þorpsbúar minnast þessara hefða með einhverjum hætti í dag og hvort fólk tali enn um hvítar mýs þegar illa gengur. HeimildaskráMaple, E. (1960). The Witches of Canewdon. Folklore, 71(4), 241-250. http://www.jstor.org/stable/1258113 Smith, Alan W. (1995). Eric Maple. 1916-1994. Folklore, 106(1-2), 87. DOI: 10.1080/0015587X.1995.9715897 Myndir Gata í Canewdon. (2007). [Ljósmynd]. https://www.rochford.gov.uk/sites/default/files/planning_conservation_canewdon_highstreet_final.pdf Kirkja í Canewdon. (1815). [Ljósmynd]. https://www.britishmuseum.org/collection/term/x103403 Gömul teikning sem sýnir nornir dansa við djöfla. (2016). [Ljósmynd]. https://www.phoenixfm.com/2016/02/02/the-witches-and-hauntings-at-canewdon/ Um höfundinnRagnheiður Þórdís Jónsdóttir, BA nemi í þjóðfræði.
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. |