Í baðstofum landsins í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu voru svefnhættir nokkuð öðruvísi en við eigum að venjast í dag. Ástæðan var sú að langflestir íbúar á bænum sváfu í sama rýminu. Því var algengast að allir færu í rúmið á sama tíma en sá tími var breytilegur sökum árstíðabundinna verka. Í Þjóðháttasafni Þjóðminjasafns Íslands leynist mikill fróðleikur um kvöldið og nóttina í íslensku baðstofunni og verður hér skyggnst inn í andrúmsloft sveitanæturinnar. Þjóðháttasafnið geymir heimildir um lífshætti fólks og hefur frá 1960 safnað efni skipulega með því að senda úr spurningaskrár, oftar en ekki til eldri borgara. Ekki er getið nafns, fæðingardags eða heimili heimildamanna í þessari skrá þjóðháttasafnsins en svörin voru skráð árið 1978. Sem fyrr segir var háttatíminn breytilegur og fór eftir árstíma. Á veturna hófst yfirleitt kvöldvaka eftir að fólk hafði matast (ÞÞ 4730, ÞÞ 4546). Á kvöldvökunni var unnin ullarvinna sem almennt var nefnd tóvinna. Meðan á vinnunni stóð var gjarnan farið með kvæði, sögur voru sagðar og undir lokin var lesinn húslestur. Á sumum bæjum var hann lesinn á hverju kvöldi en á öðrum aðeins á sunnudagskvöldum (ÞÞ 4730, ÞÞ 4687). Eftir húslesturinn háttaði fólkið sig og fór í rúmið. Oftast fóru börnin að sofa á sama tíma og fullorðna fólkið og var jafnan mikil áhersla lögð á að þau læsu bænirnar sínar með hjálp foreldranna eða afa og ömmu (ÞÞ 4527). Misjafnt var hvort fullorðnir færu með bænir og gerðu þeir það yfirleitt þegjandi ef þeir þá gerðu það (ÞÞ 4630, ÞÞ 4527, ÞÞ 4653). Eldra fólk virðist þó hafa lagt meiri áherslu á guðsorðið en það yngra og sögðu sumir að svefnró þeirra væri í húfi ef ekki væri farið með bænir (ÞÞ 4634). Gestakomur Eftir að fólk var háttað bauð heimilisfólk hvert öðru góða nótt og að því loknu lagðist fólk í rúmin (ÞÞ 4687, ÞÞ 4653). Eftir það var sú krafa gerð að fólk hefði hljótt um sig því nóttin var stutt og mikið hafði verið unnið yfir daginn, en ekki var alltaf hægt að hlýða því. Á þessum tíma, þegar fjarskipti fólust eingöngu í bréfaskriftum og einstöku fréttablaði, þótti það hreinasti hvalreki að fá næturgest inn á heimilið, sérstaklega ef hann var langt að kominn. Á þannig kvöldum gátu samræður við gestinn haldið áfram eftir að fólk lagðist til hvílu og oft var spjallað fram eftir nóttu, jafnvel alveg fram undir morgun (ÞÞ 4526, ÞÞ 4523). Þá var spjallað um veðrið, húsdýr og heybirgðir, sauðburð, fjárheimtur og verðlag hjá kaupmönnum (ÞÞ 4730). Einnig var skipst á kjaftasögum um náungann, pískrað um barneignir og framhjáhöld og best var ef einhverjir gátu skemmt hinum með eftirhermum (ÞÞ 6450). Þröngt á þingi Ef enginn næturgestur var til að halda vöku fyrir fólki gat það sofnað um leið og það lagðist út af en ekki gátu samt allir verið tryggir með góðan svefn því samlífinu í baðstofunni fylgdi ákveðið vandamál: rúmin voru yfirleitt mun færri heldur en heimilisfólkið. Því þurftu fleiri en einn að sofa í sama rúmi (ÞÞ 6450, ÞÞ 4670). Oftast sváfu tveir saman en það kom fyrir að barn þurfti að sofa til fóta eða þá að einhver þyrfti að ganga úr rúmi fyrir næturgest og þurfti þá að fjölmenna í sumum rúmum (ÞÞ 4670, ÞÞ 5396). Ekki voru allir heppnir með rekkjunaut sinn því fólk lætur misjafnlega í svefni og rúmin voru mjó. Sumir spörkuðu og voru með læti svo að rekkjunautar þeirra voru sífellt að vakna upp (ÞÞ 4505, ÞÞ 4630). Aðrir tóku upp á því að hrifsa sængina til sín eða leggja undir sig meirihluta rúmsins, sem ekki var stórt (ÞÞ 6450). Einn heimildarmaður Þjóðháttasafnsins mundi eftir tveim mönnum sem sváfu saman. Eins og þeim var lýst var annar þeirra með stærri mönnum, en hinn mjög smávaxinn. Sá minni svaf nær veggnum og um nóttina þurfti hann að pissa og teygði sig því í koppinn. Þegar hann var að athafna sig í þröngu rúminu brotnaði það og hvarf maðurinn niður með kopp og öllu en sá stóri vaknaði og hafði gaman að (ÞÞ 5054). Þegar rúmin voru óvenju þéttskipuð, til dæmis ef margir næturgestir voru, þá tók fólk stundum til þess ráðs að hreiðra um sig á gólfinu eða inni í heyhlöðu. Því fylgdi sá kostur við að sofa í hlöðunni að fljótlegt var að fara á fætur þar sem menn sváfu í öllum fötunum. Aðeins þurfti að rísa upp og hrista sig (ÞÞ 4529). Svefngenglar og tóbaksmenn Náið sambýli fólksins í baðstofunum hefur gert því kleyft að kynnast hinum ýmsu hliðum hvors annars. Oft kom það fyrir að fólk vaknaði upp við undarlega hegðun sambýlisfólks síns. Unglingsstúlka á einum bæ vakti til dæmis eitt sinn furðu fólks þegar hún reis upp úr rúminu sínu muldrandi. Hún gekk að manni sem lá sofandi í öðru rúmi, tók koddann undan höfði hans og fór að reita arfa af honum sem auðvitað enginn var. Á meðan hún þóttist reita tautaði hún í sífellu að þetta ætlaði aldrei að klárast. Um daginn hafði hún verið að reita arfa í kálgarði og það starf hafði greinilega fylgt henni inn í svefninn (ÞÞ 6450). Einnig kom það fyrir að sofandi fólk leyfði öðrum að kynnast sér helst til of vel, til dæmis stúlkan sem átti það til að ræða opinskátt um ástarmál sín um miðjar nætur eða vinnumaðurinn sem kvartaði undan lélegum mat húsfreyjunnar og kom þannig upp um sig (ÞÞ 4523). Auk þess að tala upp úr svefni voru þeir til sem sungu að næturlagi (ÞÞ 4582, ÞÞ 6450). Maður á bæ einum fór iðulega að syngja sálma þegar flestir voru sofnaðir og settist skömmu síðar upp í rúminu. Svo rölti hann syngjandi fram baðstofugólfið, kom til baka eftir dálitla stund og lagðist aftur niður syngjandi. Þannig gekk það þangað til einhverjum datt í hug að fylgjast með honum. Reyndist hann þá vera glaðvakandi. Í skjóli „svefngöngunnar“ stundaði hann það að stela flatkökum og smjöri (ÞÞ 6450). Það var trú fólks að svefngengla mætti alls ekki vekja (ÞÞ 4653, ÞÞ 4582) eða að ekki mætti nefna nafn þeirra meðan þeir gengu (ÞÞ 4678). Þá var hart bann lagt á það að hrekkja þá sem gengu í svefni og hefur það líklega verið sökum þess að óþægilegt hefur verið fyrir fólk að vakna upp með andfælum fjarri þeim stað er það sofnaði á (ÞÞ 5396). Ýmsum brögðum var beitt til að koma í veg fyrir svefngöngu þeirra sem oft urðu uppvísir að slíku. Dæmi voru um að reynt væri að setja vatnsbala við rúmstokkinn eða setja á menn fótband (ÞÞ 4628, ÞÞ 4617). Einnig voru gerðar tilraunir með að hella köldu vatni á gólfið fyrir framan svefngenglana og þannig var hægt að fá þá til að snúa aftur í rúmið (ÞÞ 5387). Á einum bæ virðist sem hætta hafi verið á að svefngengill myndi yfirgefa bæinn og því var tekið til þess bragðs að leggja blautt klæði við útidyrnar (ÞÞ 5396). Það virðist hafa verið eitthvað um það að fólk geymdi smávegis af matarskammtinum sínum og tóku með sér í rúmið til að narta í ef þeir vöknuðu á nóttunni (ÞÞ 4529, ÞÞ 4506, ÞÞ 4571). Einnig voru margir fljótir að grípa til tóbakspontunnar og fá sér í nefið ef þeir rumskuðu, stundum hálf sofandi (ÞÞ 4567, ÞÞ 4582). Einn mikill neftóbaksunnandi vaknaði einn morguninn og fann hvergi tóbaksbaukinn sinn. Eftir dálitla leit fannst hann í koppnum hans og hafði hann þá dreymt um nóttina að hann hefði gefið „einhverjum mannfjanda“ í nefið og hafði rétt honum baukinn (ÞÞ 4511). Andvökur og vinnuharka Ef fólk lá andvaka í rúmum sínum átti það að boða gestakomu daginn eftir (ÞÞ 4506). Andvakan gefur einnig örlitla innsýn inn í tilfinningalíf landsmanna á árum áður því oft voru það áhyggjur hversdagsins sem hindruðu svefninn. Á tímum sjálfsþurftarbúskapar er eðlilegt að rigning á heyskapartíma hafi valdið kvíða sem og margt annað þar sem maðurinn mátti sín lítils á móti náttúrunni (ÞÞ 4506, ÞÞ 4678). Vinnuharkan varð líka til þess að nóttin varð stutt hjá mörgum. Vinnukonur þurftu stundum að bæta föt og gera við skó þeirra sem voru háttaðir og gat þessi kvöldvinna orðið til þess að lítið var sofið á annatímum (ÞÞ 4670). Einn heimildamaður sagði frá því að þar sem hann bjó hafi matur iðulega verið soðinn langt fram á nótt í sláturtíð til að forða honum frá skemmdum (ÞÞ 4730). Heyannirnar kröfðust þess einnig að hefbundnum háttatíma þurfti að hliðra til. Bóndi einn átti það til að slá allan sólarhringinn meðan þurrkur var en í rigningartíð svaf hann aftur á móti allan sólarhringinn (ÞÞ 4522). Ekki er víst að allir hafi gripið til slíkra aðgerða en ljóst er að margur bóndinn hefur lítinn svefn fengið í góðum þurrki. Minningar heimildarmanna Þjóðháttasafnsins bera vitnisburð um fjölbreytt líf í gömlu sveitabæjunum og kærkominn svefn að loknum annasömum degi. Ýmislegt hefur gerst sem ekki fór fram hjá neinum í þéttskipuðum baðstofunum. Þrátt fyrir allt sem gat haldið vöku fyrir fólki hefur kyrrðin þó náð yfirhöndinni að lokum. Vornóttinni er lýst af ónefndum heimildarmanni með þessum fallegu orðum: „Um lágnættið var sagt að öll náttúran þagnaði dálitla stund, allir fuglar hættu að syngja. Svo færi einn og einn að syngja og aðrir tækju svo undir og allt ómaði svo aftur. Þetta var að vorinu um varptímann, á fyrsta tímanum“ (ÞÞ 4588). .
Heimildir: Óprentuð gögn á þjóðháttasafni Þjóðminjasafnsins Svör við spurningaskrá 37, Háttumál, svefnhættir, fótaferð: ÞÞ 4730, ÞÞ 4546, ÞÞ 4730, ÞÞ 4687, ÞÞ 4527, ÞÞ 4630, ÞÞ 4527, ÞÞ 4653, ÞÞ 4634, ÞÞ 4687, ÞÞ 4653, ÞÞ 4526, ÞÞ 4523, ÞÞ 4730, ÞÞ 6450, ÞÞ 6450, ÞÞ 4670, ÞÞ 4670, ÞÞ 5396, ÞÞ 4505, ÞÞ 4630, ÞÞ 6450, ÞÞ 5054, ÞÞ 4529, ÞÞ 6450, ÞÞ 4523, ÞÞ 4582, ÞÞ 6450, ÞÞ 6450, ÞÞ 4653, ÞÞ 4582, ÞÞ 4678, ÞÞ 5396, ÞÞ 4628, ÞÞ 4617, ÞÞ 5387, ÞÞ 5396, ÞÞ 4529, ÞÞ 4506, ÞÞ 4571, ÞÞ 4567, ÞÞ 4582, ÞÞ 4511, ÞÞ 4506, ÞÞ 4506, ÞÞ 4678, ÞÞ 4670, ÞÞ 4730, ÞÞ 4522, ÞÞ 4588.
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|