Örnin gegnum aldirnar: kynskipting, náernir og opinn þarfagangur - Guðlaug G. I. Bergsveinsdóttir4/4/2022 Í aldaraðir hefur mannkynið horft til himins og á fuglana sem þar svífa um. Einn af þeim sem við höfum lengi haft sérstakt dálæti á að tala um, pæla í og spinna inn í sögur er örninn. Hér á landi er það haförninn (Haliaeetus albicilla) sem skrifað er um. Rétt eins og ísbjörninn er örninn nokkurs konar raunveruleg þjóðsagnavera, vera sem er án alls vafa til í raunveruleikanum, en sögurnar eru oft og tíðum blandaðar göldrum og yfirnáttúrulegum atburðum. Örninn hefur lengi verið tengdur konungdómi og guðum. Í norrænni trú breytti Óðinn sér til dæmis í arnarlíki þegar hann drakk og stal Suttungamiði, eða skáldamiðinum.[1] Að sama skapi hefur kollegi hans Seifur einnig breytt sér í örn þegar honum hentar, og merki hans talin vera örninn og þrumufleygur.[2] Ofan á það finnst hann í fjölda skjaldamerkja fyrir konungsfjölskyldur og keisaradæmi út um allan heim.[3] Nú í dag skrifum við um örninn í karlkyni, en það hefur ekki alltaf verið svo. Þegar Jón Árnason skrifar þjóðsögur sínar segir hann að rithátturinn hafi breyst og farið frá því að vera karlkyns og yfir í kvenkyns, því ritar hann iðulega um „örnina“ í kvenkyni. Hann bætir því einnig við að assan sé fugla stærst og fuglakóngur sem haldi tign „þrátt fyrir breytt kyn“,[4] sem er nú eins gott. Nokkrum öldum áður skrifar Jón lærði um örninn og þá var það einnig tilviljanakennt hvort kynið hann notar. Hann segir einnig að mælt sé að „hún verði 900 ára gömul og kaste ellibelgnum í skýjum uppi og svo verði að ferskri.“[5] Það er talið vera fyrir stórtíðindum ef „þrjár arnir fljúga hver á eftir annarri“[6] en sveimandi ernir vita aftur á móti á mannadauða.[7] Jón Árnason skrifaði talsvert um þennan merka fugl. Hann segir frá því að þegar „örnin“ fljúgi þurfi hún alla sína orku og rembist svo mikið að „þarfagangur“ hennar standi opinn. Músarrindill, einn minnsti fugl landsins, sækir þá að henni að aftan og reynir að fljúga inn um opið til að særa örnina. Því til sanninda bætir Jón við að arnir hafi fundist með dauðan músarrindil í þarfaganginum.[8] Að auki tók hann fram að það væri talið ógæfumerki að skjóta örn, en „hamingjusamt sé henni hjálpað“[9] og tók fyrir tvö dæmi sem örninn gæti þurft aðstoð við. Annað var á þá leið að stundum gæti örn komið sér fyrir á árbakka með það í huga að veiða lax, héldi sér þá í bakkann með einni kló og krækti í laxinn með hinni. Einmitt þannig ætti hann síðan til að festast ef laxinn væri of stór, því þegar örn hefur krækt í eitthvað getur hann ekki losað takið svo auðveldlega. Það var því talið lánsamt að hjálpa erni sem væri fastur svona. Hitt dæmið var um gogg eða skolt fuglsins. Efri skolturinn gæti beygst og tekið upp á því að vaxa niður fyrir neðri skolt. Þá á að höggva eða tálga krókinn af, og mun assa verða þakklát fyrir þá aðstoð.[10] Hættulegir fólki?
Ein frægasta sagan af erni sem herjaði á fólk, og er ekki þjóðsaga, er ef til vill hin svokallaða Skarðssaga. Í henni segir frá því þegar Ragnheiður Eyjólfsdóttir á Skarði á Skarðsströnd var hrifin upp af erni, aðeins tveggja ára gömul. Örninn greip hana og flaug í átt að Krossfjalli, þar sem vitað var að hann ætti hreiður, en fljótlega kom í ljós að hann gat ekki haldið flughæð vegna þyngslanna. Maður á bænum hafði riðið á eftir þeim og tókst að slengja stöng í væng arnarins, sem þurfti þá að setjast og sleppa stúlkunni, en henni var ekki meint af þessu ævintýri fyrir utan nokkrar skrámur.[13] Gagnleg: hægt að nýta til að fá betra minni OG hræða óvini þína!Hægt er að nýta örninn á ýmsa vegu. Sagt var að drepsóttir væru illar verur sem hægt væri þó að verjast með því að drepa erni, taka þá og menn „flógu svo belgi af þeim, tróðu þá upp og hengdu þá í fjárhúsum sínum“ og átti það að vera vörn gegn fjárpestum. Að sama skapi var hægt að hengja upp arnarkló í smiðjum til að verjast illum öndum[14] og væri hún höfð í „smiðjusveifinni“ og haldið um hana þegar blásið væri myndi smiðjan aldrei brenna.[15] Fjaðrir arnarins eru að sama skapi gífurlega gagnlegar. Samkvæmt Jóni Árnasyni er hægt að glepja fólki sjónir með því að taka fjöður úr vinstri væng og leggja undir dýnu sem viðkomandi situr á.[16] Sigfús benti einnig á að drykkju börn mjólk gegnum fjöðurstaf af erni yrðu þau afar minnisgóð. Ásamt því var hægt að taka fjöður úr arnarvæng, þó ekki tekið fram hvorum þeirra, brenna hana og sáldra öskunni yfir höfuð manns og myndi það koma í veg fyrir að hann yrði andvaka.[17]
Eitt dæmi um illan anda í arnarlíki kemur frá Sigfúsi. Á bæ einum var guðhrædd vinnukona sem virti hvíldardaginn heilagan, ólíkt öðrum guðlausum vinnuölkum á bænum. Eitt sinn heyrði hún örn, sem var í raun illur andi í arnarlíki, kveða vísu yfir bænum og gat hún flúið burtu áður en heljarinnar skriða féll yfir hann, til að refsa hinum guðlausu.[21] Önnur áhugaverð saga um sendingu eða illan anda kemur frá Ólafi Davíðssyni. Þar er sagt frá séra Ásgeiri prestlausa sem var nefndur svo því hann var settur frá embætti sínu „fyrir ýmsa óknytti“. Hann bað um að Þórir nokkur tæki við af sér en sá neitaði. Ásgeir reiddist og heitaðist við Þóri, fór svo víða og andaðist að lokum. Þegar það gerðist var Þórir á útlendu skipi og sáu skipverjar þá fugl, keimlíkan erni, koma fljúgandi í átt að þeim. Hann var sagður með hræðileg augu og sagði skipstjórinn að „hefndaraugu væru í þessu dýri til einhvers“. Aðsóknin var talin beinast að Þóri, því hann féll í dá og gat ekki hreyft sig. Til að hann myndi ranka við sér þurfti þó ekki annað en að snerta hann. Eitt sinn fékk hann þó aftur svona aðsvif þegar hann var á ferðalagi yfir heiði nokkra og þorði piltur sem var með honum í för ekki að snerta hann, því hann sýndist svo hræðilegur. Þegar menn komu að honum aftur var hann dauður, lík hans allt blátt og blóðugt. Ekki fylgir sögunni hvort þessi aðsvif hafi byrjað með aðsókn arnarins eða hvort var talið að örninn hefði ráðist á hann þegar hann var varnarlaus, liggjandi á heiðinni.[22] Af öllu þessu má sjá að haförninn hefur haft fjölþætta merkingu og not gegnum aldirnar, en er iðulega tengdur við guðdóm og galdra. Sendingar og illir andar létu sjá sig í hans líki og var hann talinn hættulegur fólki af ýmsum ástæðum. Sumar voru rótgrónar í raunveruleikanum og aðrar áttu rætur í hinu yfirnáttúrulega, en allar jafn gildar. Tilvísanir[1] Snorri Sturluson, Skáldskaparmál, 45. [2] George E. Mylonas. The Eagle of Zeus, 203. [3] Eagle (heraldry) [4] Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, I, 611 [5] Viðar Hreinsson, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar, 596 [6] Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, II, 536 [7] Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir, IV, 243 [8] Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, I, 611 [9] Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, V, 482 [10] Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, I, 611 [11] Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir, IV, 240 [12] Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir, VIII, 210 [13] Ótilgr. höfundur. Örn rændi tveggja ára barni, 201. [14] Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir, IV, 326 [15] Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, I, 613 [16] Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, I, 613 [17] Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir, V, 30 [18] Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir, VII, 254 [19] Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir, VIII, 93 [20] Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, III, 601 [21] Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir, I, 49 [22] Ólafur Davíðsson, Íslenzkar þjóðsögur, I, 315 HeimildaskráRitaðar heimildir George E. Mylonas. The Eagle of Zeus. The Classical Journal. 41. árg., 1946, bls. 203. Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. 1.-5. bindi. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1954. Ólafur Davíðsson. Íslenzkar þjóðsögur. 1. bindi. Bjarni Vilhjálmsson sá um útgáfuna. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1978. Sigfús Sigfússon. Íslenskar þjóðsögur og sagnir. 1.-8. bindi. Óskar Halldórsson bjó til prentunar. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1982. Snorri Sturluson. Skáldskaparmál. Snorra-Edda. Heimir Pálsson sá um útgáfuna. Reykjavík: Mál og menning, 2003, 45-46. Viðar Hreinsson. Jón lærði og náttúrur náttúrunnar. Reykjavík: Lesstofan, 2016. Ótilgreindur höfundur. Örn rændi tveggja ára barni. Lesbók Morgunblaðsins. 18. árg., 1942, bls. 201-202. Heimildir – af netinu Eagle (heraldry). Sótt 8. nóvember 2021: https://en.wikipedia.org/wiki/Eagle_(heraldry) Myndir Mynd 1: White-tailed eagle gathering in Oder Delta presents magnificent spectacle, sótt 8. nóvember 2021: https://rewildingeurope.com/news/white-tailed-eagle-gathering-in-oder-delta-presents-magnificent-spectacle-2/ Mynd 2: Haförninn, mynd tekin af Daníel Bergmann, sótt 8. nóvember 2021: https://fuglavernd.is/tegundavernd/haforninn/ Um höfundinnGuðlaug Guðmunda Ingibjörg Bergsveinsdóttir er þjóðfræðingur og framkvæmdastjóri Össuseturs Íslands ehf.
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. |