Einn helsti hátíðisdagur ársins hjá Íslendingum fyrr á öldum var sumardagurinn fyrsti, sú hátíð kom næst jólunum, segir Jónas frá Hrafnagili í biblíu þjóðfræðingsins, Íslenzkum þjóðháttum (Jónas Jónasson 1961: 219). Þetta staðfesta margar fleiri heimildir. En hvernig er þessu farið nú til dags, hvernig heldur fólk upp á sumardaginn fyrsta á því herrans ári 2023? Hvaða breytingar hafa orðið á siðum og venjum á þessum gamla og góða merkisdegi á síðustu árum og áratugum? Þetta vorum við þjóðfræðingar hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum dálítið forvitin um og bjuggum þess vegna til könnun sem kynnt var og deilt á Facebook, þar sem spurt var út í þessi mál. Spurt var út í kyn, aldur og búsetu með valmöguleikagluggum og í kjölfarið fylgdu fjórar opnar spurningar um ólíka þætti tengda þessum hátíðahöldum. Á örfáum dögum bárust 204 svör, mjög misjafnlega ítarleg. Langflest voru frá konum, þær voru 80% svarenda. Enginn yngri en 18 ára tók þátt í könnuninni. Þessi svör liggja til grundvallar í þessari grein, auk þess sem litið er til heimilda um eldri tíma. Við ákváðum að vinna úr svörunum í tveimur aðskildum greinum. Önnur snýst um veðurspár og athuganir á sumardaginn fyrsta og skrifar Eiríkur Valdimarsson hana. Sú grein sem þið eruð að lesa hér, snýst hins vegar um aðrar hefðir og hátíðahöld á þessum degi, með áherslu á samtímann og breytingar á siðum frá fyrri tímum. |
Auglýsing um sumardagskort í Vísi 21. apríl 1931 | Eitthvað er ennþá um að fólk fari í betri föt og stundum er talað um sumarlegan klæðnað í svörunum. Töluvert algengt er að fólk geri vel við sig í mat, það er greinilega ennþá hefð sem mörg hafa í heiðri. Kona búsett í þorpi á aldrinum 19-39 fangar þetta í stuttri samantekt: „Farið í betri föt, flaggað, sumardagskaffi og grillaður góður matur sama hvernig veður er“ (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 190). |
Ég og maðurinn minn erum með glænýja hefð, að borða skyrköku. Í janúar í fyrra, er við vorum að tala um hátíðisdaga og hefðir (samtalið byrjaði á að vera um þrettándann en færðist yfir í hátíðisdaga almennt), þá fannst honum vanta að það væri skyrkaka á einhverri ákveðinni hátíð. Honum fannst að skyrkaka væri sumarkaka en mér fannst að hún ætti heima að vori eða hausti. Úr varð að henni var úthlutaður sumardagurinn fyrsti, til að fagna sumrinu en þó er í raun bara rétt komið vor (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 47).
Frá safnaheimsókn til Siglufjarðar á sumardaginn fyrsta 2023 - ljósm. Jón Jónsson | Misjafnt er hvort einhver skemmtidagskrá eða viðburðir séu á sumardaginn fyrsta nú til dags eftir byggðum og bæjum. Söfnin í landinu eru þó greinilega að efla tengsl sín við þennan dag og þó nokkur svör segja frá því að söfn hafi verið heimsótt í tilefni hans. Við Eyjafjörð er haldinn safnadagur á sumardaginn fyrsta og frítt inn á mörg söfn á því svæði af því tilefni. Víðar eru viðburðir tengdir söfnum, eins og t.d. á Árbæjarsafni. |
Byrjar á skrúðgöngu þar sem sumardísin og vetrarkóngurinn sitja á traktorsvagni með börnum í núverandi fyrsta bekk, farið er góðan hring og tónlist í gangi. Stoppað er fyrir utan sjúkrahúsið og sungið fyrir allt gamla fólkið og svo er haldið áfram að félagsheimilinu þar sem allir fá sér fríar vöfflur, eftir smá tíma er sungið um veturinn eða vorið og vetrarkóngurinn flytur ljóð um veturinn og gefur sumardísinni valdastafinn og þá flytur hún ljóð um komandi sumar og sungin lög um sumarið (Nú er sumar mjög vinsælt og alltaf sungið). Eftir það byrjar bingó og eru frí spjöld og mjög góðir vinningar (hótelgistingar og utanlandsferð), stundum hafa líka verið hoppukastalar en þá bara svona litlir (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 96).
Foreldrafélag í grunnskóla bæjarins hefur haldið uppi dagskrá, td víðavangshlaup, sund og pulsugrill. Mæti og tek þátt. Sem barn í Breiðholtinu var ég í skátunum og þar var marserað með fána í skátaskyrtunni mjög minnisstætt sérstaklega ef það var kalt sem var nú stundum þá var maður að frjósa með fánastöngina! (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 162).
Nei, fór einu sinni á tombólu og vann ullarsokka. Held að pabbi hafi að lokum stolið þeim. Annars eru engvir atburðir á mínum slóðum á þessum tímamótum, né í minni bernsku í Skagafirði. Fyrir utan þessa fyrrnefndum bólu þarna um árið, sem haldin var í Lýdó sirka árið 1990. Annars mæti ég helst ekki á viðburði, sérstaklega þegar börn eru að stíga á stokk og foreldrar að horfa á í gegnum símaskjáinn sinn - oj! (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 136).
Það eru hátíðahöld hér í Reykjavík en ég hef ekki tekið þátt í þeim, líklega því ég ólst upp úti í sjávarþorpi þar sem ekki voru nein skipulögð hátíðahöld þennan dag og það er því ekki hluti af mínum hefðum. En sumardagurinn fyrsti var mikill hátíðisdagur á bernskuheimili mínu og í raun var mun meira við haft á sumardaginn fyrsta og sjómannadaginn en á 17. júní þegar ég var barn (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 56).
Dagrún Ósk Jónsdóttir doktor í þjóðfræði og Jón Jónsson þjóðfræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofu
Allir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt.
December 2025
January 2025
December 2024
November 2023
August 2023
May 2023
April 2023
September 2022
May 2022
April 2022
March 2022
February 2022
June 2020
May 2016
January 2016
November 2015
January 2015
May 2014
April 2014
February 2014
January 2014
December 2013
October 2013
June 2013
May 2013
February 2013