Þegar verkamannabústaðirnir við Hringbraut voru byggðir á þriðja tug síðustu aldar þótti ekki sjálfsagt að hafa baðherbergi í hverri íbúð eða önnur þau nútímaþægindi sem þykja sjálfsögð í dag. Í þessari grein verður rakin saga þessara bústaða og þeirra hugarfarsbreytinga sem þurfti til að gera húsnæðið eins nútímalegt og raunin varð. Sumir vilja halda því fram að líkaminn sé musteri sálarinnar, en í þeim orðum felst sú hugsun að líkami sé eitt og sálin annað sem er mjög í anda tvíhyggjunnar. Af orðum Halldórs Kiljan Laxness í greininni „Um þrifnað á Íslandi“ má greina að hann hafi verið sama sinnis þegar hann segir að hreinn líkami valdi: … þokkalegu sálarlífi. Menn fara að hugsa bjartar, menn fara að vilja fegurr. Hreinir menn verða ósjálfrátt geðslegir í umgengni. Viti maður sig geðslegan fyrir sjálfum sér, verður hann ósjálfrátt geðslegur gagnvart öðrum. Maður, sem veit sig ógeðslegan með sjálfum sér, hagar sér ruddalega gagnvart öðrum. Hér er að finna lausn nokkura þeirrar gátu, hvers vegna sóðaskapur og ókurteisi fylgist einatt að.(1) Í orðatiltækinu „saursæll maður er jafnan auðsæll“ fer lítið fyrir andanum, þar er það efnið, hið líkamlega eða efnislega sem skiptir máli. Þau sjónarmið sem koma þar fram virðast hafa verið ríkjandi fyrr á öldum því að í Íslenskum þjóðháttum Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili má finna eftirfarandi lýsingu: Börnin voru að sönnu þvegin nokkrum sinnum, eftir að þau komu úr laugartroginu, en svo kom sjaldan eða aldrei vatn á líkama manna að sjálfráðu upp frá því. Flestir þvoðu sér þó að nafninu til í framan, þegar þeir fóru til kirkju, en ekki um hendurnar nema stundum. Menn þvoðu sér á ullarlepp eða strigatusku og þurrkuðu sér á sama. Hárið var og sjaldan greitt, enda var það meira en lítið kvalræði, eins og menn báru það sítt. Kvenfólk var tilhaldssamara og þvoði sér og greiddi á helgum og oftar, og margar konur og stúlkur greiddu sér daglega.(2)2 Í dag er þrifnaður almennur og hluti af menningarbundinni félagsmótun okkar. Það voru nýútskrifaðir læknar sem báru með sér heim nýjar hugmyndir um hreinlæti sem menningarbundið fyrirbæri. Einn þeirra var Guðmundur Hannesson og í grein sem hann ritaði árið 1921 „Um hreinlæti“ segir hann að aðalstraumur menningarinnar séu náttúruöfl sem enginn ráði við. Það sé ekki ástæða til þess að hafa áhyggjur af hvaðan þeir menningarstraumar komi þar sem þeir séu runnir frá innsta eðli og þá sé ekki hægt að flýja né reyna að breyta.(3) Steingrímur Matthíasson er sama sinnis þegar hann heldur því fram að þrifnaður sé heilsubót og beri vott um hátt menningarstig.(4) Í sápuauglýsingu Ogstons & Tennants frá 1916 er fullyrt að hreinlæti og þrifnaður sé ávalt talið hið augljósa merki um sanna menningu þjóða. Stéttaskipting var áberandi í hreinlætisumræðunni, þar voru hinir fátæku óhreinir en þeir ríku hreinir.(5) Útlendingar voru oft álitnir óhreinir og óvinir jafnvel líka, enda oft kallaðir „skítmenni“ sem gat réttlætt óviðeigandi framkomu í þeirra garð. Steingrímur áleit villiþjóðir svo sem svertingja, skrælingja og Kínverja lifa almennt í miklum sóðaskap. Þeir sem voru komnir lengra á framfarabraut voru aftur hreinlátari. Samspil þrifnaðar og sjúkdóma var uppgötvað á þessum tíma og heilsa almennings varð að opinberu viðfangsefni íslenskra stjórnvalda. Umbótasinnar sem samanstóðu af hópi menntamanna, eða lækna og verkfræðinga, hófu baráttu sína fyrir vatnsveitu í Reykjavík rétt fyrir aldamótin 1900. Guðmundur Björnsson læknir oft nefndur „faðir vatnsveitunnar“, leit á vatnsveituna sem skilyrði fyrir auknum þrifnaði almennings og bættu heilsufari fólks. Hann lagði til að allir yrðu skattlagðir jafnt, óháð vatnsnotkun því ef að fólk sparaði við sig vatn kæmi það niður á almennum þrifnaði. Eftir að vatnsveitan kom, árið 1909, komust vatnssalerni í notkun. Sumum þótti það „flottræfilsháttur“ en með tilkomu þeirra fækkaði útikömrum og að öðru leyti bötnuðu heilbrigðisskilyrði fólks með tilkomu veitunnar.(6) Eftir fyrri heimsstyrjöld fór umræða um húsakost verkafólks hátt um alla Evrópu, þá var talið að allir, en ekki einungis hinu betur settu, ættu að eiga kost á vönduðu húsnæði, góðum arkitektúr og heilsusamlegu umhverfi. Fyrstur til að taka upp þessa umræðu á Íslandi var Guðmundur Hannesson læknir og skömmu síðar benti Guðjón Samúelsson á nauðsyn þess að stofna hér byggingafélagsskap því það væri forsenda þess að almenningur fengi aðgang að vönduðu og heilsusamlegu húsnæði.(7) Ástandið í húsnæðismálum á þriðja áratug síðustu aldar var afar slæmt, sökum dýrtíðar sem var afleiðing fyrri heimsstyrjaldar. Íbúum hafði fjölgað og upp var komin mikil húsnæðisekla því húsbyggingum hafði að mestu verið slegið á frest. Ástandið notfærðu húseigendur sér og hækkuðu húsaleigu upp úr öllu valdi, með því að segja leigjendum upp og neyða þá þannig til að samþykkja hækkun á leigunni. Þrátt fyrir að Alþingi hafi sett húsaleigulög í Reykjavík til þess að sporna við þessu, leystu þau ekki húsnæðisekluna þó dregið hafi verulega úr húsaleiguokri. Tugir fjölskyldna voru húsnæðislausar og fjöldi fólks bjó í húsakynnum sem voru ekki mönnum sæmandi.(8) Þegar farið var að huga að byggingu verkamannabústaða voru fyrirmyndir einkum sóttar til Svíþjóðar og Danmerkur en stóru spurningunni var enn ósvarað „Hver á að byggja yfir þá húsnæðislausu?“(9) Það varð úr að Byggingafélag alþýðu var stofnað með lögum árið 1929. Héðinn Valdimarsson sem var jafnframt formaður félagsins frá upphafi til ársins 1946, var flutningsmaður frumvarpsins.(10) Með frumvarpi laganna segir hann í greinagerð, að það sé hið mesta verkefni núlifandi kynslóðar að koma upp hollum og vönduðum húsakynnum í stað þeirra bústaða sem Íslendingar hafi búið í fyrr á öldum sem voru bæði köld og óholl. Þær traustu og sólríku byggingar sem hafi verið reistar víða um land á síðasta mannsaldri hafi næsum eingöngu verið fyrir efnafólk til sjávar og sveita. Lögin kváðu á um að stofnaðir skyldu byggingasjóðir í kaupstöðum og túnum. Skyldi ríkissjóður leggja árlega í sjóðinn 1 kr. fyrir hvern íbúa og jöfn upphæð kæmi frá kaupstöðum og túnum. Báðir aðilar ábyrgðust í jöfnum hlutföllum lán til útlánastarfsemi sem sjóðnum væri heimilt að taka. Lánin skyldu tryggð með veðskuldabréfi fyrir hverja íbúð og veitt gegn 1. veðrétti í húsunum. Lánskjörin voru þau að lánshlutfallið eða 85% greiddist með jöfnum greiðslum sem voru 6% af allri lánsupphæðinni í 42 ár. Þau skilyrði voru sett fyrir láninu að árstekjur færu ekki yfir 4000 kr. á ári miðað við meðaltal 3ja síðustu ára frá því þeir gerðust félagsmenn.(11) Þegar lögin voru komin í gegn lá næst fyrir að velja staðsetningu og skipulag, teikna og reisa bústaðina. Árið 1927 var fyrsta heildarskipulag fyrir Reykjavík samþykkt, það náði til svæðisins innan Hringbrautar og Skúlagötu. Í skipulaginu var gert ráð fyrir samfelldum röðum af tveggja og þriggja hæða steinhúsum. Það má segja að þessi hús hafi verið forverar blokkanna sem síðar voru byggðar. Um hagkvæmni þess konar húsnæðis voru menn sammála og voru vissir um að það myndi henta efnalitlu fólki. Funkisstefnan var höfð að leiðarljósi við byggingu verkamannabústaðanna, hreinleiki og nýting var í aðalhlutverki og ekkert pláss var fyrir óþarfa skraut og flúr. „Þarna var í fyrsta skipti reist íbúabyggð í anda módernismans og þessi hús eru jafnframt talin merk straumhvörf í íslenskri byggingarlist.“(12) Eftir að Byggingafélag verkamanna var stofnað árið 1930 var hafinn undirbúningur að byggingu sambyggðra bústaða á lóð sem var, mörkuð af Hringbraut, Bræðraborgarstíg, Ásvallagötu og Hofsvallagötu. Aðalhöfundur teikninganna var Þorlákur Ófeigsson á skrifstofu húsameistara ríkisins.(13) Félagsmenn höfðu ýmislegt að athuga varðandi teikningarnar, þeim fannst eldhúsin of lítil og gátu ekki sætt sig við að hafa rúm og kojur föst í svefnherbergjunum.(14) Guðmundur J. Guðmundsson, leiðtogi verkamanna um árabil, var einn af frumbyggjum í verkamannabústöðunum við Hringbraut er hann flutti inn með foreldrum sínum. Hann segir þessar íbúðir sennilega eina mestu byltingu í byggingarsögu Reykjavíkur og þær séu mjög merkilegar ekki síður fyrir þá sök að þetta snauða en þó stolta fólk, hafi tvisvar sinnum kolfellt teikningarnar af húsnæðinu. Að lokum var teikningunum breytt í samræmi við vilja fólksins sem vildi hafa bað, eldhúsinnréttingar, þvottahús og þurrkhús í kjallara. Í allsleysinu vildi það engan óþrifnað sagði Guðmundur. Að auki fékk það rennandi heitt vatn (áður en hitaveita kom til) og rafmagnseldavélar. Baðherbergi með kerlaug og sturtu, vatnssalerni og vaski var algjör bylting á þessum tíma en slík herbergi þekktust einungis í einstaka lúxusíbúðum. Þarna voru rafmagnseldavélar teknar í notkun í fyrsta skipi, trúlega var það ekki samkvæmt kröfu verkamannanna því um þær stóð mikill styr því fólk trúði ekki á rafmagn til eldunar og var því gas leitt inn að auki, til öryggis.(15) Árið 1932 var fyrsti áfangi þessarar ferhyrningslöguðu sambyggingar tekin í notkun en byggingu var ekki endanlega lokið fyrr en 1935. Þetta voru alls 26 hús með 100 tveggja og þriggja herbergja íbúðum, til viðbótar var þar verslunarhúsnæði á tveimur hornum bygginganna sem rúmaði fimm dagvöruverslanir auk bókasafns. Sameiginleg kynding var fyrir öll húsin og barnaleikvöllur í miðju ferningsins.(16) Samfelldur straumur gesta kom til að skoða baðið, rafmagnseldavélina og eldhúsinnréttinguna eftir að Guðmundur J. og fjölskylda hans flutti inn því „sannleikurinn er sá að þetta voru það góðar íbúðir“ sagði hann og „góðir vinir voru heiðraðir með því að þeir fengu að fara í bað svona einu sinni, tvisvar til þrisvar á ári. Það var hátíðleg stund í lífi þeirra þegar þeir komu til að fá að fara í bað.“(17) Með byggingu þessara verkamannabústaða má segja að bilið milli stétta hafi minnkað töluvert. Það er langur vegur frá árlegu baði forfeðra okkar til daglegs baðs samtímans og hugmynda fólks um hreinlæti. Enginn dregur lengur í efa samhengi hreinlætis og sjúkdóma og nánast ekkert heimili er án baðherbergis og í því má finna nokkrar tegundir af sápum, þökk sé umbótasinnuðum aldamótamönnum. Húsnæðisskortur er venjulega hvatinn að byggingu húsnæðis, að minnsta kosti hjá þeim efnaminni, og er þá leitast við að finna hagkvæmustu lausnina, það tókst þeim frumkvöðlum sem reistu verkamannabústaðina við Hringbraut. Ekki einungis byggðu þeir góðar íbúðir sem voru vel skipulagðar bæði að utan og innan með öllum helstu nútímaþægindum, heldur fundu þeir líka leið til þess að peningalitlir verkamenn gætu keypt sér þak yfir höfuðið.(18) Í upphafi þessar greinar vitnaði ég í grein Halldórs Kiljan Laxness um hreinlæti og fer vel á því að enda hana á orðum hans úr sömu grein því að segja má að með tilkomu verkamannabústaðanna við Hringbraut hafi verkamenn getað uppfyllt kröfur skáldsins um hreinleika og þokka:
Aftanmálsgreinar:
Heimildir Anthony Synnott.Tomb, Temple, Machine and Self: The Social Construction of the Body. The British Journal of Sociology, Vol. 43, No. 1, 1992, 79–110. Byggingafélag alþýðu. Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Einkaskjalasafn nr. 100. Cox, Rosie. Dishing the Dirt: Dirt in the Home. Dirt: The Filthy Reality of Everyday Life. London: Profile Books. 2011, 38–73. Drífa K. Þrastardóttir, Páll V. Bjarnason. Húsakönnun, Verkamannabústaðirnir við Hringbraut. Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur, skýrsla nr. 123. 2005. Guðjón Friðriksson. Frumbyggi í verkamannabústöðum. Reykjavík bernsku minnar: Nítján Reykvíkingar segja frá. Reykjavík: Setberg. 1985, 22-31. Guðjón Friðriksson. Saga Reykjavíkur: Bærinn vaknar: 1870-1940. Reykjavík: Iðunn. 1991- 1994. Guðjón Friðriksson. Guðmundur Hannesson og skipulag Reykjavíkur. Borgarbrot: Sextán sjónarhorn á borgarsamfélagið. Ritstj. Páll Björnsson. Reykjavík: Borgarfræðasetur og Háskólaútgáfan. 2003, 45-57. Guðmundur Hannesson. Um hreinlæti. Skírnir. 1921, 70-85. Fríða Björk Ólafsdóttir, Baðmenning. Óbirt ritgerð, Háskóli Íslands, Hugvísindadeild, 2013. Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Íslenskir þjóðhættir. 4. útgáfa. Einar Ól. Sveinsson bjó undir prentun. Reykjavík: Bókaútgáfan Opna. 2010. Upphaflega gefið út 1934. Halldór Kiljan Laxness. Um þrifnað á Íslandi. Iðunn: Nýr flokkur. 12. árgangur. 1928, 310- 333. Húsnæðismálið. Alþýðublaðið. 6. okt. 1924, 2. Oddný Jónsdóttir. Einkenni þróunnar húsnæðisúrræða í Reykjavík frá 1916-2008. Óbirt BA- ritgerð við Háskóla Íslands, Félagsvísindadeild. 2011. Lög um verkamannabústaði. Tíminn. 1. júní 1929, 131. Sápa. Sápa! Norðurland. 15. júní 1916, 104. Shilling, Chris. The Civilized Body. The Body and Social Theory. London; Newbury Park, CA: Sage Puplications. 1993, 161–186. Smith, Virginia. Health Crusaders. Clean. A History of Personal Hygiene and Purity, Oxford. 2007, 264–306. Steingrímur Matthíasson. Um þrifnað og óþrifnað. Eimreiðin. 1906, 161-175. Verkamannabústaðir. Lögrétta. 14. mars 1928, 4. Verkamannabústaðir. Vikuútgáfa Alþýðublaðsins. 1. ágúst 1928, 2-4. Wiltse, Jeff. Contested Waters. A Social History of Swimming Pools in America. Chapel Hill: University of North Carolina Press. 2007, 1-30. Netheimildir Anna Dröfn Ágústsdóttir. Vatnaskil. Áhrif vatns- og fráveitu á heilsufar Reykvíkinga 1890- 1940. 2010. Sótt 10. apríl 2013 á: http://www.or.is/media/PDF/Heilsuveitur.pdf Verkamannabústaðirnir við Hringbraut friðaðir. Minjastofnun Íslands. 2011. Sótt 13. apríl 2013 á: http://www.husafridun.is/starfsemi/frettir/nr/905
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. |