![]()
Veturinn 2019-2020 var býsna harður á okkar nútímamælikvarða, við upplifðum langa harðindakafla í veðurfari, óveður og rafmagnsleysi. Í vetrarlok kom síðan heimsfaraldur sem setti öll plön og allar venjur út í kuldann. Við þessar aðstæður er ekki laust við að hugurinn reiki til fyrri kynslóða fólks á Íslandi, sem ítrekað þurftu að fást við harðindi og hörmungar, farsóttir og alls konar ógnir, í sínu hversdagslífi. Þessi glíma fór fram við aðstæður sem við þekkjum ekki lengur og viljum sennilega vera alfarið laus við að kynnast á eigin skinni. Þegar kemur fram á 19. öld eigum við margvíslegar heimildir, töflur og töluleg gögn, sem gefa okkur vísbendingar um dánartíðni á Íslandi, ungabarnadauða og hversu margir dóu úr farsóttum árlega. Einnig er hægt að finna út hversu margir niðursetningar voru á framfæri sveitanna. Sömuleiðis má finna yfirlit um harðindaárin, þar sem skepnur drápust og hey brugðust. Til að öðlast dýpri skilning á búskaparbasli forfeðranna, baráttu þeirra við heilsuleysi og hungur, fátækt og sorg, þurfum við þó annars konar heimildir. Þá kemur sér vel að nokkuð hefur varðveist af persónulegum heimildum fólks sem ritaðar voru á meðan á þessu basli stóð, samtímaheimildir frá tilveru sem er gjörólík okkar, bréf og dagbækur þeirra sem upplifðu slíka erfiðleika á eigin skinni. Það er beinlínis stórmagnað að komast í heimildir um daglegt líf á 19. öldinni, rýna milliliðalaust í orðin sem hrutu á þeim tíma af penna skrifaranna og reyna að skyggnast inn í allt það sem leynist á milli línanna. Dagbók Jóns gamla Jónssonar Við kynnum til leiks dagbók sem skrifuð var á Ströndum á árabilinu 1846-1879, af manni nokkrum sem hét því virðulega nafni Jón Jónsson. Hann var stundum kallaður Jón gamli, sökum þess að hann náði óvenju háum aldri, varð tæplega 84 ára. Dagbókin er varðveitt í Handritasafni Landsbókasafns og hefur safnnúmerið Lbs 5134 4to.(1) Fyrir nokkrum misserum var hún ljósmynduð og gerð aðgengileg á vefnum handrit.is og var það framtak hluti af samvinnuverkefni Handritasafns og Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu. Hafa starfsmenn setursins nú skrifað alla dagbókina upp, 244 þúsund orð. Jón þessi var fimmtugur þegar hann byrjaði að skrifa í dagbókina í ársbyrjun 1846. Hann var fátækur leiguliði, bóndi og sjómaður, og bjó á þessum tíma og næstu 15 árin ásamt Ingigerði Sölvadóttur konu sinni og börnum þeirra á bænum Miðdalsgröf í Kirkjubólshreppi við sunnanverðan Steingrímsfjörð. Þá hrökkluðust þau hjónin af jörðinni og fluttu sig í verbúðarkofa Jóns í Naustavík í landi Heiðarbæjar í sömu sveit, en Þórunn dóttir þeirra var húsfreyja í Heiðarbæ. Þar voru þau húsfólk þar til Ingigerður dó í júní 1865, en þá fór Jón á hálfgerðan þvæling um sveitina, en dvaldi síðan á heimilum dætra sinna, hjá Þórunni í Heiðarbæ, Þóreyju á fjallajörðinni Fitjum í Hrófbergshreppi og síðasta áratuginn sem hann lifði var Jón hjá Málfríði dóttur sinni á Ósi í sömu sveit, næsta bæ innan við Hólmavík. Harðindi, hungur og hörmungar Fyrir mann eins og Jón, fátækan leiguliða, bónda og sérlegan áhugamann um sjósókn og selveiðar, með hóp af börnum og lítið land til ræktunar, mátti ekki miklu skeika í tíðarfarinu. Alltaf var sú ógn yfirvofandi að hart yrði í ári og skortur í búi. Sjúkdómar og farsóttir voru eilíflega á ferli og hungurvofan sífellt á sveimi skammt undan. Þar sem Jón skrifaði um veðrið á hverjum degi, er auðvelt að skoða tengingar milli illviðra, harðinda og hungurs. Afleiðingar harðinda, langra illviðrakafla og almenns rótleysis má sjá á víð og dreif um dagbókina hans Jóns. Vorin gátu verið sérstaklega erfið og varhugaverð, þá var heyfengur fyrir skepnur og matföng fyrir mannfólkið oft af skornum skammti, eins og sjá má af færslum frá Fitjum vorið 1869: 26. mars. Föstudagurinn langi. Logn og hreinviðri, þétt frost. Við Fríða og Magnús sóttum hrís á skíðasleða. Árni að Hrófbergi til að leita matbjargar. Hann kom jafn snauður aftur. Þessar lýsingar eru nöturleg áminning um að fólk og þá ekki síst börnin lifðu við slæman kost þegar hart var í ári og lítið um mat. Þannig hafa harðindi snert við öllum og engum hlíft. Segja má að ævi Jóns, sem vissulega var löng, ljúki í anda þeirrar hörku sem einkenndi líf almennings á þessum tímum. Síðasta færslan í bók Jóns vorið 1879 er svohljóðandi: 31. maí. Ég hefi verið í og við rúmið þessa viku af landfarsótt og brjóstveiki. Fundust hrútarnir er töpuðust í haust. Öðrum kastað, hinn notaður. Alla þessa daga hefur verið sólfar og hægð. Þremur dögum eftir að annar af hrútunum sem týndust um haustið var hirtur um vorið, væntanlega til matar, var Jón gamli Jónsson dáinn, saddur lífdaga. Hvort hann hafi sjálfur borðað kjöt af hrútnum sem nýttur var, skal ósagt látið. Tilfinningar, líf og dauði um miðja 19. öld Um það leyti sem Jón var að hefja dagbókarritun sína, rétt fyrir miðja 19. öld, var dauðinn sífellt að minna á sig. Ungbarnadauði er til dæmis talinn hafa verið slíkur á þeim tíma hér á landi, að þriðja hvert barn dó á fyrsta ári. Þessi tölfræði á raunar við um barnahóp Jóns og Ingigerðar, þau misstu 4 af 12 börnum sínum, áður en þau urðu ársgömul. Tólfta barnið þeirra, Steingrímur, fæddist og dó sama ár og dagbókarritunin hófst. Dagbókarritarinn upplifði sjaldan ró eða öryggi í tilveru sinni, hversdagurinn var snúinn og erfiður. Raunar eru lýsingar Jóns á slíku í dagbókinni stundum umfram það sem gengur og gerist í sambærilegum dagbókum 19. aldar. Þrátt fyrir sífellda ótíð og veikindi er frekar óalgengt að finna í slíkum bókum tilfinningaþrungnar lýsingar á vanmætti fólks gagnvart erfiðum aðstæðum. Hið hefðbundna dagbókarform sem flestir fylgdu, var þannig að umræðuefnið var fyrst og fremst praktískir minnispunktar og fréttaflutningur. Jafnan var skrifað um veður- og tíðarfar, einnig vinnutengd verkefni til sjós og lands, fréttnæma atburði í samfélaginu og jafnvel um víða veröld. Lítið var um að menn bókuðu og bæru á borð tilfinningar eins og sorg eða gleði. Þessu fylgdi Jón líka að langmestu leyti, en þó má finna mikilvægar undantekningar þar sem hann stígur út úr hinum hefðbundna dagbókarramma. Í september 1850 andaðist sonur Jóns og Ingigerðar, Björn að nafni, aðeins 7 ára gamall. 16. september. Suðvestan stormur og þerrir. Jón var í leitunum. Stúlkurnar rökuðu í keldunni 2. Gunna litla var heima hjá móður sinni, ásamt Guðrúnu í Heiðarbæ að hjúkra að líkama Björns sáluga, sem andaðist um nóttina kl. 1½. Blessuð sé hans minning. Þessi orð er hjartanleg og sönn og oft væri ekkert meira um þetta dauðsfall að segja, miðað við hefðbundnar dagbókarfærslur á þessum tíma. En í heilt ár á eftir skrifaði Jón reglulega um sorgina eftir Björn litla og þá einkum djúpa sorg konu sinnar. Sagði hann þau hjónin vera „sinnulítil“ af sorg og að Ingigerður væri „sárvesæl af sorg“, „mikið sorgbitin alltaf“, eða „angurbitin“. Um hálfu ári eftir andlát Björns litla fór Jón meira að segja með konu sína á nálægan bæ, þar sem úr henni var tekið blóð eftir kúnstarinnar reglum og átti sú aðgerð að lækna hana af sorginni, eymd og hugarvíli. Þrátt fyrir blóðtökuna, sem Jón hafði tröllatrú á sem lækningaraðferð, bjó sorgin eftir Björn litla áfram í brjósti Ingigerðar og með tímanum hætti Jón að skrifa um þessa þungu reynslu þeirra hjóna. Þung sorg átti eftir að heimsækja Jón gamla aftur. Árið 1865 veiktist Ingigerður kona hans af landfarsótt, en slíkar sóttir gengu reglulega um landið og oft um hábjargræðistímann sem einmitt var mikilvægt að nota til ýmissa starfa. Jón hafði farið af bæ í leit að mat fyrir þau hjónin og lækningu handa konunni sinni elskulegri, eins og hann kallar Ingigerði iðulega í dagbókinni. Þegar hann kom aftur heim í kofann í Naustavíkinni var allt um seinan fyrir slíkan björgunarleiðangur: 9. júní. Sunnan hæglátur. Ég að Smáhömrum, sækja matbjörg og að leita hjálpar handa henni. Hún dauðsjúk, en andaðist klukkan 5 eftir miðjan dag, rétt áður en ég kom heim. Gaf góður guð henni mikið hægt og rólegt andlát. Guðrún mín alltaf hjá henni. Björn mágur minn lagði líkið til með mér. Hún var 65 ára. Höfðum saman verið í hjónabandi 41 ár, eignast 12 börn saman, af hverjum nú lifa 2 synir og 5 dætur. Hún var mitt lífsins yndi og sönn kóróna hið ytra og innra frá fyrsta til síðasta. Elskuð af öllum, skyldum og vandalausum. Lofaður veri góður guð! sem svo náðarsamlega tók hana til sín eftir unnið hérvistar stríð. Drottinn hann gefi mér náð að þreyja mínar síðustu stundir í Jesú náðar nafni. Eftir þessa erfiðu reynslu fór Jón á hálfgert flakk og í nokkurn tíma eftir að hann varð ekkill, sagðist hann vera „vesæll til þankanna“ og hafa „angraðan huga“, auk þess sem hann skrifaði á einum stað þessa litlu setningu tæpum tveimur mánuðum eftir andlát Ingigerðar: Oft er hún í huga mér. Andleg vanheilsa vegna áfalla og vandamála hefur því greinilega verið til staðar í gamla bændasamfélaginu og þjáningar hugans bankað á dyrnar endrum og sinnum. Mögulega hefur eitt úrræðið til að bæta þar úr verið að festa slíkt á blað líkt og Jón gamli gerði, skrifa niður tilfinningar sínar, eins og sum meðferðarúrræði nútímans segja til um. Þó er ólíklegt að það hafi verið algengt, dæmi um þessháttar hugleiðingar eru fátíðar í dagbókum frá þessum tíma. Fyrir vikið er þessi dagbók enn merkilegri. Læknishjálp á 19. öld Algengara er að Jón segi frá margvíslegum líkamlegum krankleika sem hrelldi fólk. Í dagbókinni talar Jón oft um að hann eða aðrir séu vesælir eða hálfvesælir. Ýmiskonar fróðleikur flýtur með um lækningaaðferðir þessara tíma og var margt reynt.(2) Þetta sést sérlega vel á lýsingu á veikindum Jóns sjálfs og annarra fjölskyldumeðlima haustið 1855. Þann 1. september segist hann vera lagstur í rúmið af „kvefþyngslum og verk í mjöðminni“. Í nokkra daga samantekt í dagbókinni segir síðan: 3. september - 8. september. Þessa viku hafa gengið á víxl sunnan, landaustan og norðan vindar með úrfelli. Þær stúlkurnar mikið vesælar. Drógust á fótum. Hin systkinin lítið skárri, þó úti á millum. Hún sjálf vesæl. Ég lá alltaf. Brúkaði meðöl, bakstra, tevatn, stólpípu, brenndi á mig og lét taka mér blóð. Ljóst er af lýsingunni að fólk hefur haft úr ólíkum aðferðum að moða til að bæta heilsu sína og oft lagt ýmislegt á sig. Og Jón, hún (sem er örugglega Ingigerður konan hans) og aðrir fjölskyldumeðlimir náðu heilsu aftur í þetta skiptið, lifðu af bæði veikindin og allar þessar lækningaaðferðir. Fyrir kom að Jón áttaði sig á hvaða aðferðir virkuðu hverju sinni og hverjar ekki. Árið 1871 hætti hann að brúka eina aðferð, því hún skilaði ekki tilætluðum árangri: 28. júlí. Hægur og við landsynning. Lítil væta er á leið. Rökuð veitan, ent við túnið að slá. Upprakað. Ég smíðaði keip á skip. Alltaf er ég veikur fyrir brjóstinu. Drekk þó vatn af saman blönduðum grösum. En hættur við hákarlslýsið, það gerði ei veikleika mínum gagn. Ekki er getið hér um fiskerí. Af þessu má sjá að ábyrgð fólks á eigin heilsu og velferð var mikil. Þjónusta lækna var ekki beinlínis aðgengileg fyrir Strandamenn á 19. öldinni, en hins vegar gátu þeir eins og aðrir landsmenn aflað sér fróðleiks. Lestrarfélag Kirkjubóls- og Fellssafnaða var stofnað formlega á fundi á þriðja deginum sem Jón færir dagbókina sína, 3. janúar 1846, og hefur bætt mjög úr aðgengi hans að bókum og lesefni. Fyrsta bókin um sjúkdóma og lækningar fyrir alþýðufólk kom út 1834, Lækningabók fyrir alþýðu (Jón Pétursson, 1834). Mikill kostur við hana er að bókin var beinlínis skrifuð miðað við íslenskar aðstæður. Í Grasnytjum Björns í Sauðlauksdal er líka mikill fróðleikur um hvernig ýmsar jurtir voru notaðar til lækninga (Björn Halldórsson, 1783). Menntaðir læknar voru hins vegar sárafáir starfandi á landinu og þjónuðu þá svo víðáttumiklum landsvæðum að þau voru algjörlega óviðráðanleg til ferðalaga í lækningaskyni. Landlæknisembættið var stofnað 1760 og fram að lokum þeirrar aldar urðu önnur læknisembætti fimm talsins, þar af var einn starfandi fyrir alla Vestfirði og Vesturland. Á fyrri hluta 19. aldar bættust við læknar í Vestmannaeyjum 1827 og Húnavatnssýslu 1837. Það var loks árið 1875 sem samþykkt var að fjölga læknishéruðum í 20 og sama ár var samþykkt að koma á læknaskóla í Reykjavík. Tók hann til starfa árið eftir og fór þá loks að vænkast verulega með betra aðgengi landsmanna að læknastéttinni (sjá Embætti landlæknis: Sagan). Meðalaferðir er oft minnst á í dagbókinni og framan af er jafnan talað um að einhver hafi farið suður til að sækja meðöl, þó hugtakið suður merki annað á Ströndum nú en þá. Síðar í dagbókinni er merkismaðurinn herra Jón læknir á Hellu kominn til sögu, en hann bjó á Selströnd norðan við Steingrímsfjörðinn (sjá Jóhann Hjaltason, 1963, 88-126; Pétur Jónsson, 1947, 221-226). Jón dagbókarritari hafði mikla trú á herra Jóni og til hans voru sóttar lækningar og meðöl og oft var læknirinn sjálfur sóttur til sjúklinga. Jón Guðmundsson á Hellu (1828-1882) var reyndar alls ekki menntaður læknir, þrátt fyrir þetta viðurnefni. Hann hafði þó þá sérstöðu meðal sjálfmenntaðra á landsvísu að hafa fengið takmarkað leyfi til að stunda lækningar og tók munnlegt próf í læknislistum hjá landlækni sem þá var Jón Hjaltalín (Pétur Jónsson, 1947, 223-224). Sagt er að Jón hafi byrjað að stunda lækningar um það leyti sem hann flutti að Hellu árið 1858 (Jóhann Hjaltason, 1963, 94). Þann 26. júní sama ár er fyrst getið um Jón á Hellu í dagbókinni, þá er hann fenginn til að koma yfir Steingrímsfjörðinn vegna veikinda Þorkels sonar Jóns og Ingigerðar, sem lá í landfarsótt. Þá var búið að reyna blóðtöku og senda mann suður eftir meðölum. Saga Jóns á Hellu er reyndar feykilega áhugavert þjóðfræðilegt rannsóknarefni, því ýmis gögn frá honum eru varðveitt á Handritasafni Landsbókasafn, m.a. sendibréfasafn (Lbs 5041 4to), óheilt handrit lækningabókar sem sögð er skrifuð af honum (Lbs 4964 4to), bónarbréf um lækningaleyfi frá 1859 (Lbs 5129 4to) ásamt sjúklingabók frá árunum 1861-69 með bókhaldi um þau lyf sem sveitungarnir fengu frá honum, kostnað og greiðslur (Lbs 5132 4to). Eins er, eða var alla vega, til hluti af dagbók Jóns sem gaman væri að rýna í (Jóhann Hjaltason, 1963, 8, 102-108). Lækningaaðferðir alþýðu Blóðtökur eru langvinsælasta lækningaaðferðin sem sagt er frá framan af í dagbókinni og brúkuð við hverskyns sjúkdómum. Jón gamli Jónsson hefur haft gríðarmikla trú á þessari lækningaaðferð, það sést víða í dagbókinni. Áður en læknar komu til sögu hér á landi voru sjálfmenntaðir blóðtökumenn í nánast hverri sveit sem sérhæfðu sig í slíkum aðgerðum. Mikil og flókin fræði liggja á bak við blóðtökurnar og fylgt var fjölbreyttum reglum um hvaða mánuði og daga mátti taka blóð og hvar það var tekið úr líkamanum hverju sinni, m.a. eftir sjúkdómum, tunglstöðu, sjávarföllum, mánuði, stjörnumerkjum, kyni og aldri þess sem blóðið var tekið úr. Allt byggir þetta á fornum fræðum um jafnvægi líkamsvessanna sem voru undirstaða læknisfræðinnar á Vesturlöndum allt frá því í fornöld og fram á 19. öld (Jón Steffensen 1990, 165-178). Blóðið sem kom var svartleitt fyrst og átti að láta það renna, þar til það væri orðið rautt og fallegt og hæfilega þykkt (Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2019, 130). Önnur gamalþekkt lækningaaðferð sem Jón nefnir er brennsla, hann segist hafa „brennt á sig“. Þessi aðferð er aðeins nefnd á þremur stöðum í dagbókinni. Ingigerður kona hans brenndi á sig í nóvember 1855 þegar hún var rúmliggjandi af bakverki og Þorkell sonur þeirra í júní 1856, sér til heilsubótar. Brennslujárn eru til á söfnum, þau voru yfirleitt notuð til að stöðva blæðingar eða til að búa til vilsuveitu, sár sem síðan var viðhaldið um einhvern tíma til að hleypa greftri og vessum út úr líkamanum (Jón Steffensen 1990, 182-183). Grasalækningar koma einnig fyrir, tedrykkjan í færslunni frá því í september 1855 hlýtur að vísa í einhverskonar grasaseyði. Slíkt kemur skýrar fram á nokkrum öðrum stöðum í dagbókinni. Þann 7. júlí 1875 var Jón vesæll og með verk fyrir brjósti. Skar hann þá arfa og himinnjólablöðkur saman í graut handa sér, „til reynslu við vesöld minni“. Arfi, himinnjóli, njóli og njólarætur eru nefndar til lækninga og heilsubótar á nokkrum öðrum stöðum í dagbókinni, einnig mellifólía (vallhumall) sem er nefnd tvisvar og blóðberg einu sinni. Allar þessar jurtir eru taldar upp sem lækningajurtir í Grasnytjum séra Björns í Sauðlauksdal (Björn Halldórsson, 1783, 5-7, 26-28, 85-87, 211-213). Að nota stólpípu var einnig orðin vel þekkt aðferð á 19. öld og sérstaklega mælt með henni í lækningabók Jóns Péturssonar sem kom út 1834 (Jón Pétursson, 1834, 203-204, Jón Steffensen, 1990, 186-188). Notkun stólpípu er nefnd nokkrum sinnum í dagbókinni og var þeirri aðferð beitt bæði á menn og skepnur. Stólpípa er nefnd við lækningar á fólki fimm sinnum í dagbókinni, fyrst 1849 og síðast 1871, en við lækningar á kúm tvisvar árið 1850. Næstum dauð ær var líka vakin til lífsins og læknuð með stólpípu og kaffi sumarið 1853. Jón segir að þessar aðferðir hafi verið brúkaðar til að lækna hann sjálfan af landfarsótt og beinverkjum með dagsmillibili 9. og 10. júlí 1852, eftir að í ofanálag hljóp í hann tak. Fyrri daginn var honum sett stólpípa og þann seinni prófaði hann að purgera og reyndi ýmislegt fleira sem hann nefnir ekki hvað var. Purgering var innvortis hreinsun með hægðalyfi, aðferð sem seinna var kölluð að laxera. Björn í Sauðlauksdal notar þetta sama sagnorð, að purgera, í bókinni Grasnytjar sem mjög líklegt er að Jón hafi lesið og haft fróðleik frá (Jón Steffensen, 1990, 186). Alls nefnir Jón fjórum sinnum í dagbókinni að hann hafi purgert, síðast 1869. Í lýsingu á veikindum í desember 1868, segir Jón að purgering hafi læknað hann af vesæld og veikindum, en þá hafði hann reynt ýmsar fleiri leiðir. Jón var á ferðinni þegar hann varð veikur: 2. desember. Austnorðan drif. Ég að Kálfanesi, þar um nóttina. Var ég þá svo yfirkominn af mæði að varla náði andanum og þá óvíst hvað verða mundi. Tóku þau góðu hjón Finnur og hans kona mig að sér og létu mér allt gott í té er þeim mögulegt var. Á ævi Jóns urðu breytingar á lækningaaðferðum sem áhugavert er að skoða. Blóðtökurnar tapa vinsældum sínum á tímabilinu og meðölin verða greinilega mikilvægari, einkum eftir að Jón á Hellu var kominn með lyf og takmarkað lækningaleyfi. Óvíst er þó hvort að herra Jón læknir hafi nokkurn tíma glatt Jón gamla meira en haustið 1872: 15. september. Hæglátur norðan og væta á milli. Séra Magnús embættaði á Stað á Reykjanesi. Feðgarnir Ólafarnir fóru út að Hellu og sendi herra læknarinn Jón mér þriggja pela flösku af brennivíni með þeim. Fortíð og framtíð Ævi og dagbók Jóns Jónssonar er um margt áhugavert rannsóknarefni sem við hyggjumst vinna áfram með. Hún upplýsir um marga þætti hversdagslífsins fyrir einni og hálfri öld og af sumu því sem Jón lýsir er hægt að draga lærdóm. Í dag er tilvera margra Íslendinga snúin eftir býsna krefjandi vetur. Lífsafkoma margra er ótrygg, tekjur stórra hópa hafa minnkað og atvinnuleysi er algengt. Sumir eru enn að glíma við eftirköst veikinda og ljóst er að stór hópur fólks í samfélaginu á um sárt að binda. Blessunarlega erum við samt komin langt frá þeim raunveruleika sem beið Jóns dagbókarritara á hverjum morgni. Og blessunarlega erum við nú að verða miklu duglegri að tjá tilfinningar okkar, bæði karlar og konur, í stað þess að bera harm okkar sífellt í hljóði, ár og síð og alla tíð. Dýrmætt er líka að nú skuli allur heimurinn hafa sett sér sameiginleg markmið og stefnu. Markmið um að fólk passi upp á hvert annað, að tryggt verði að enginn fenni inni í fátækt og enginn upplifi hungur. Heilbrigði og vellíðan sé réttur allra, alltaf, alls staðar. Í slíkri stefnu felast göfug markmið og fyrirheit um breyttan heim (sjá Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna). Hér á landi er líka mikilvægt að sofna ekki á verðinum. Jón og Eiríkur eru báðir verkefnisstjórar hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu. Aftanmálsgreinar 1) Sjá Lbs 5134 4to - Handritasafn Landsbókasafns, aðgengileg á handrit.is. Við færum textann til nútímastafsetningar í þessari grein, einnig í beinum tilvitnunum og leysum upp úr þeim skammstöfunum sem við skiljum. Áhugamenn um handritalestur, stafsetningu og styttingar, geta skoðað handritið sjálft að vild til samanburðar. 2) Um alþýðulækingar fyrri alda er m.a. hægt lesa nánar hjá þeim Elsu Ósk Alfreðsdóttur (2013), Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur (2019), Jóni Steffensen (1990) og Jónasi Jónassyni frá Hrafnagili (1961). Heimildir
Björn Halldórsson. 1783. Grasnytjar. Kaupmannahöfn. Aðgengilegt á baekur.is - https://baekur.is/bok/000043618/Grasnytjar. Elsa Ósk Alfreðsdóttir. 2013. „Fólk heldur oft að við séum bara hippar úti á túni, en þetta er blóð, sviti og tár.“ Þróun grasalækningahefðar á Íslandi og áhrif stofnanavæðingar á alþýðuhefð. Óbirt MA ritgerð í þjóðfræði við Háskóla Íslands, Félagsvísindasvið. Embætti landlæknis. Sagan. Sjá: https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/saga/, sótt á vefinn 19. maí 2020. Heimsmarkmiðin. Sjá: https://www.heimsmarkmidin.is/forsida/heimsmarkmidin/, sótt á vefinn 19. maí 2020. Jóhann Hjaltason. 1963. Frá Djúpi og Ströndum. Nýtt safn. Reykjavík, Iðunn. Jón Pétursson. 1834. Lækninga-Bók fyrir almúga. Kaupmannahöfn. Aðgengilegt á baekur.is - https://baekur.is/bok/000208774/Laekningabok_fyrir. Jón Steffensen. 1990. Alþýðulækningar. Íslensk þjóðmenning VII. Alþýðuvísindi. Raunvísindi og dulfræði. Ritstjóri Frosti F. Jóhannsson. Reykjavík, Bókaútgáfan Þjóðsaga, s. 103-192. Jónas Jónasson frá Hrafnagili. 1961. Íslenskir þjóðhættir. Reykjavík, Ísafoldarprentsmiðja ehf. Lbs 4964 4to. Óheilt handrit lækningabókar sem sögð er skrifuð af Jóni Guðmyndssyni á Hellu. Lbs 5041 4to. Sendibréfasafn Jóns Guðmundssonar á Hellu. Lbs 5129 4to. Bónarbréf um lækningaleyfi fyrir Jón Guðmyndssyni á Hellu frá 1859. Lbs 5132 4to. Sjúklingabók Jóns Guðmundssonar á Hellu frá árunum 1861-69, með bókhaldi um þau lyf sem sveitungar hans fengu frá honum. Lbs 5134 4to. Dagbók Jóns Jónssonar (1795–1879) Miðdalsgröf árin 1846–1879. Sjá: https://handrit.is/is/manuscript/imaging/is/Lbs04-5134#page/Fremra+spjald+(r)+(1+af+830)/mode/2up Ólína Þorvarðardóttir. 2019. Lífgrös og leyndir dómar: Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi. Reykjavík, Vaka-Helgafell. Pétur Jónsson frá Stökkum. 1947. Strandamannabók. Reykjavík, Ísafoldarprentsmiðja.
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|