Inngangur Þegar kom að því að ég færi að skrifa lokaritgerð mína í þjóðfræði var ég staðráðin í því að skrifa um ævintýri, enda hafði heimur ævintýranna og möguleikar rannsókna á þeim heillað mig verulega. Ég tók allar mína valeiningar innan kynjafræðinnar og var því spennt fyrir því að sameina þetta tvennt, ævintýri og kynjafræði. Sagnaskemmtanir og ævintýri hafa verið órjúfanlegur hluti af íslensku þjóðinni allt frá landnámi. Oft hefur verið talað um ævintýri sem skáldskap þjóðarinnar þar sem ekki virðist vera einn ákveðinn höfundur sem rekja má uppruna þeirra til, heldur ganga þau manna á milli og taka breytingum eftir því sem við á. Hver sagnamaður lagar ævintýri að áheyrendahóp sínum og frásagnareiningar (minni/motif) fylgja svæðisbundnum og menningarlegum breytileika. Rannsóknir á ævintýrum bjóða upp á mikla möguleika enda hafa þau verið rannsökuð út frá mörgum mismunandi sjónarhornum. Þau má setja í félagslegt samhengi og ráða í ýmislegt um það hvaða málefni og skoðanir voru ríkjandi í samfélaginu, og vinsælt hefur verið að nýta þau í sálgreiningu, eins og Bruno Bettelheim gerði á sínum tíma og fjallar meðal annars um í bók sinni The Uses of Enchantment: The Meaning and Importance of Fairy Tales. Sú mikla bylting sem varð í kvenréttindum, og jafnréttisbaráttu almennt, á seinni hluta 20. aldarinnar skilaði sér inn á rannsóknarsvið þjóðsagnafræðinnar og hafa rannsóknir á ævintýrum út frá femínísku sjónarhorni bæst við alla þá flóru rannsókna sem fyrir var. Femínístar hafa meðal annars gagnrýnt ævintýrin fyrir staðalmyndir sem þar eru dregnar upp. Kvenhetjur þeirra þykja fyrst og fremst hógværar og hlýðnar, undirgefnar og fallegar, en á sama tíma eru karlhetjur ævintýranna virkir gerendur. Karlafræði er ört vaxandi fræðigrein innan kynjafræðinnar og beinir spjótum sínum að stöðu karlmanna í nútíma samfélagi. Fræðimenn innan þess geira hafa bent á að staðalmynd karlmannsins sé óraunhæf svo ekki sé meira sagt. Það vakti áhuga minn og forvitni að skoða þessar staðalmyndir í íslenskum ævintýrum og þegar ég hóf rannsókn mína valdi ég sex ævintýri af mismunandi gerð úr safni Jóns Árnasonar, Íslenskar þjóðsögur og ævintýri. Þetta voru ævintýrin Grænklædd, Viðfinnu saga og Sagan af Hildi góðu stjúpu, en þau eiga það sameiginlegt að aðalhetjurnar eru kvenkyns. Ævintýrin Hesturinn Gullskór og sverðið Dynfjöður, Herrauður og Helga og Sagan af Rauðukusu hafa hins vegar karlkyns aðalsöguhetju. Kvenlæg ævintýri
Þegar kvenlægu ævintýrin sem talin voru upp hér að framan eru skoðuð má sjá nokkuð einsleita mynd af kvenhetju ævintýranna. Að undanskilinni Helgu, í ævintýrinu Grænklædd, eru þær allar konungsdætur en sömu kröfur virðast gerðar til þeirra varðandi hegðun og iðni þrátt fyrir mismunandi stöðu. Helga spinnur ull heilan vetur og Viðfinna sér um húsverkin, en Ingibjörg tekst hins vegar á við flóknari verkefni sem kalla á líkamlegan styrk í bland við þolinmæði. Mikil áhersla er lögð á fegurð stúlknanna og er það helst þessi áhersla á útlitsdýrkun sem hefur hvað mest verið gagnrýnd af femínískum fræðimönnum. Ingibjörg, í Sagan af Hildi góðu stjúpu, og Viðfinna, í Viðfinnu saga þóttu báðar sérlega fagrar strax við fæðingu. Ingibjörg þótti „undur frítt meybarn“ og eftir því sem hún varð eldri „var mjög orð á gert hversu fríð hún væri og efnileg.“ Viðfinna þótti „meybarn mikið og fagurt“ en ekki er minnst á fegurð Helgu. Helga var olnbogabarn í lágstéttar fjölskyldu en svo virðist sem fegurð almúgastúlkna komi ekki í ljós fyrr en réttum fatnaði er skartað. Fegurð stúlknanna er borin saman við fegurð stjúpmæðra þeirra og velta má fyrir sér hvort það gæti verið kveikjan að óvild stjúpanna, sem hafa áhyggjur af afkomu sinni innan ríkisins. Hildur, stjúpmóðir Ingibjargar, var sögð „bæði fögur og kurteis og mjög áþekk Ingibjörgu“ og Viðfinna þótti „enn fríðari en Vala“ stjúpmóðir hennar. Það er fyrst og fremst fegurðarinnar vegna sem kóngssynir kvænast þeim, en auk þess fylgir þeim vissulega ríkulegur heimanmundur. Þegar faðir Ingibjargar leit Hildi fyrst augum varð hann „þegar fanginn af fegurð hennar,“ og þegar kóngssonur fann Viðfinnu nær dauða en lífi í skóginum varð hann „ásthugfanginn af fegurð hennar þótt hún væri illa aðtekin.“ Þessa áherslu á fegurð kvenhetjanna má greinilega sjá í afþreyingariðnaði svo sem kvikmyndum og ekki síður í teiknimyndum fyrir börn. Svo virðist sem kvenhetjurnar séu fyrst og fremst skilgreindar út frá fegurð ásamt hógværð og iðni þeirra. Í grein Jónu Valborgar Árnadóttur kennara, „Gæti Mjallhvít gifst Þyrnirós?,“ ber Jóna Valborg saman mismunandi birtingarmyndir Þyrnirósar í nútímanum og vekur athygli á því hversu mikil áhersla er á æsku hennar og fegurð. Fegurð er eitthvað sem vert er að keppa að því það er hún sem sigrar að lokum. […] skilaboð sögunnar eru ótvírætt þau að hún hljóti kossinn vegna fegurðar sinnar og undirgefni en ekki vegna annarra eiginleika eins og gáfna enda kemur vart stakt orð af viti upp úr henni. Jóna bendir þannig á að lítið sé gert úr gáfum Þyrnirósar, líkt og með aðrar kvenhetjur sem hér hafa verið ræddar. Ingibjörg virðist vera sú eina sem sýnir fram á líkamlegan styrk og klókindi, en almennt virðast ekki mörg tilfelli þar sem kvenhetjur ævintýranna sanni nokkuð annað en fegurð sína. Karllæg ævintýri Fjölbreyttari mynd má sjá af karlhetjum fyrrnefndra ævintýra en allar eiga þær það sameiginlegt að hafa náð takmarki sínu vegna mikillar útsjónarsemi og hæfni. Þær tileinka sér keppnisskap, ágirnd og jafnvel lævísi, en upplifa sjaldan tilfinningar eins og sorg eða hræðslu. Takmark þeirra er völd og ríkidæmi og snúast ferðir þeirra um þroskaferli sem færir þeim á endanum virðingarstöðu. Algengt er að fjölskylda karlhetjunnar komi lítið við sögu enda yfirgefur hún heimahaginn og heldur á vit ævintýranna, heldur einangruð félagslega. Séu birtingarmyndir karlhetja ævintýranna skoðaðar út frá karlafræði má sjá margar þær staðalmyndir karlmanna sem fræðimenn benda á að séu slæmar, og birtast okkur ítrekað. Þessar hugmyndir hafa þó ekki verið mátaðar við hetjur ævintýranna í jafn miklu mæli og í femínískum fræðum, enda karlafræði heldur nýleg grein innan kynjafræðinnar eins og áður hefur komið fram. Þorsteinn, aðalhetjan í ævintýrinu Hesturinn Gullskór og sverðið Dynfjöður, er olnbogabarn og þarf að berjast fyrir sínum tilverurétti upp að vissu marki. Hann fer að heiman og leysir þrautir og fær að verðlaunum hönd kóngsdóttur. Herrauður, í ævintýrinu Herrauður og Helga, er eini illvirkinn í umræddum ævintýrum og hlýtur hann grimmilega refsingu í lok sögunnar. Sigurður, í ævintýrinu Sagan af Rauðukusu, er kóngssonur en þegar stjúpmóðir hans kemur til sögunnar og vandræði hans hefjast, hikar hann ekki við að taka málin í sínar hendur og fer að heiman. Á ferðum sínum sannar hann hugrekki sitt og styrk þegar hann sigrast á tröllum og bjargar kóngsdætrum, en eina þeirra fær hann sem verðlaun í lokin. Sigurður hræðist ekki hættuförina og þrautirnar virðast honum ekki ofviða, eins og Max Luthi bendir á varðandi karlhetjuna „To him, the tasks, difficulties, and dangers that confront him are nothing but opportunities.“ Útlit karlhetjanna virðist ekki gegna stóru hlutverki en hins vegar má greinilega sjá að kröfur eru gerðar til þeirra um rétta hegðun og hlýðni. Karlhetjurnar eru í meira mæli hugrakkir og áræðnir gerendur sem fara frjálsir ferða sinni og tjá sig óheft. Ferðir og einangrun ævintýrahetja Kvenhetjur fyrrnefndra ævintýra voru í tveimur tilfellum konungbornar en í einu tilfelli kotungur. Þær áttu það allar sameiginlegt að vera hógværar, iðnar og fallegar, en það eru einmitt kostirnir sem tryggja þeim velgengni og hamingju, í formi hjónabands. Karlhetjurnar sem fjallað var um, voru kóngssonur, bóndasonur og illvirki. Sömu lögmál virðast ríkja um kóngs- og bóndason sem báðir fara að heiman og takast á við þroskaferli sitt, en forsaga illvirkjans Herrauðs er ekki kynnt, enda kemur í ljós að hann er tröll og útskýrir það hans illa eðli. Bæði kven- og karlhetjurnar dvelja tímabundið í einangrun en augljósan mun má sjá á milli þess hvernig þeirri einangrun er háttað. Kvenhetjurnar eru yfirleitt þvingaðar í einangrun á meðan karlhetjurnar verða einangraðar að eigin frumkvæði. Helgu er til að mynda hrint fram af kletti og dvelur á einangruðum stað, þar sem henni er ætlað að leysa verkefni. Viðfinna er skilin eftir í skóginum til að deyja, þar sem hún dvelur þar til kóngssonur kemur henni til bjargar. Ingibjörg dvelur ásamt Hildi stjúpmóður sinni í kastala sem svipar til þess þegar unglingsstúlkur ævintýranna eru lokaðar í skemmu eða turni um það leyti sem þær ná kynþroskaskeiði. Karlhetjurnar eru á hinn bóginn frjálsari í sinni einangrun. Þorsteinn biður um leyfi foreldra sinni til að fara af stað og leita bræðra sinni og Sigurður fer að eigin frumkvæði að heiman til að bjarga lífi kusu sinnar. Báðir mæta þeir hindrunum á ferðum sínum, sem þeir sigrast á og hljóta kóngsdóttur í verðlaun, ásamt betri stöðu innan samfélagsins. Illvirkinn Herrauður er sinn eigin herra í einu og öllu og lætur sér fátt um finnast varðandi almenn samskipti og hegðunar reglur. „Ástin“ sigrar allt Að undanskildum Herrauði sem er refsað í lok ævintýrisins, hljóta allar hetjur fyrrnefndra ævintýra verðlaun í formi hjónabands. Athyglisvert er þó að líta til þess að engin þeirra velur sér í raun sinn maka, heldur fá honum úthlutað. Helga og Viðfinna eru einfaldlega sóttar af sínum kóngssonum og Ingibjörg giftist bróður Hildar án þess að hafa nokkra skoðun á ráðahagnum sjálf. Þorsteinn giftist kóngsdóttur sem hann frelsar úr álögum og Sigurður fær sína kóngsdóttur sem verðlaun frá kóngi fyrir vel unnin störf. Faðir Sigurðar syrgir látna drottningu sína þar til hann hittir aðra konu í skóginum, en þá virðist hann taka gleði sína á ný. Svipaða sögu má segja af föður Viðfinnu, sem vanrækir ríki sitt þar til aðstoðarmaður hans fer af stað til að finna honum nýja eiginkonu „sem mætti verða honum til unaðsbóta.“ Þetta samræmist fjórða frásagnarlið af fimmtán, sem Aðalheiður Guðmundsdóttir dósent í þjóðfræði greindi varðandi stjúpusögur „Ráðgjafar biðja kóng/bjóðast til að leita nýrrar konu.“ Þannig má sjá konur hlutgerðar upp að vissu marki og ekki virðist vera neitt tiltökumál að skipta einni út fyrir aðra. Að lokum Rannsókn mín leiddi í ljós að gagnrýni femínískra fræðimanna á rétt á sér að mörgu leyti. Kostir kvenhetja eru fyrst og fremst hógværð, iðni og þolinmæði. Þær eru í fæstum tilfellum virkir gerendur í eigin lífi, heldur sitja þær frekar þolinmóðar við iðju sína og láta aðra um að bjarga sér ef þess þarf. Kostir karlhetjanna eru á hinn bóginn hugrekki, styrkur og áræðni, sem þeim leyfist að nýta sér til þess að komast til valda og eignast það sem þeir þrá. Kynjafræðingar hafa bent á að ríkjandi kynjakerfi sé skaðlegt báðum kynjum en mín tilfinning er sú að mun meiri áhersla og gagnrýni hafi verið lögð á staðalmynd kvenhetjunnar og þær settar í samhengi við nútíma samfélag. Nauðsynlegt er því að líta á dýpri merkingu ævintýranna og hafa í huga að fyrrnefndum ævintýrum var safnað á fyrri hluta 19. aldar, en þá voru það einmitt kostir eins og hógværð, iðni og þolinmæði sem færðu konur í átt að markmiðum sínum, þegar þær höfðu einfaldlega færri tækifæri en karlmenn. Að mínu mati má sjá að augljós vakning hefur orðið hvað varðar birtingarmynd kvenhetjunnar og nægir að nefna teiknimyndir svo sem Brave (2012) og kvikmyndir á borð við The Hunger Games (2012) og Divergent (2014), en aðalhetjur þessar mynda eru sjálfstæðar og sterkar unglingsstúlkur. Áhugavert verður að fylgjast með þessari þróun og greina sögur samtímans þegar fram líða stundir, því ljóst er að af nógu er að taka þegar kemur að rannsóknum innan þjóðsagnafræðinnar. Heimildir Aðalheiður Guðmundsdóttir. Stjúpur í vondu skapi. Tímarit máls og menningar. 56. árg., 3. hefti 1995, 25-36. Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I.–VI. bindi, ný útgáfa. Útg. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1954-1961. Jóna Valborg Árnadóttir. Gæti Mjallhvít gifst Þyrnirós? Lífsseigar kynímyndir í afþreyingariðnaðinum. Börn og menning, 20. árg. 1.tbl. 2005, 16-23. Lüthi, Max. The European Folktale: Form and Nature. Bloomington: Indiana University Press, 1982. Stone, Kay. Things Walt Disney Never Told Us. The Journal of American Folklore. Folklore 88. árg. 1975, 42-50. Tatar, Maria. The Hard Facts of the Grimms´ Fairy Tales. New Jersey: Princeton University Press, 1987. Um höfundinn Áslaug Heiður Cassata - Þjóðfræðingur í meistaranámi, sem auk þess starfar á Þjóðminjasafni Íslands.
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. |