Þriðjudaginn 18. október síðastliðinn héldu tveir nýútskrifaðir meistaranemar fyrirlestur um rannsóknir sínar á fyrirlestrinum Letur og langspil. Það voru þau Eyjólfur Eyjólfsson og Sigrún Sigvaldadóttir.
Við birtum hér nokkrar myndir af viðburðinum. Við þökkum fyrirlesurunum kærlega fyrir og öllum þeim sem komu og hlustuðu en bráðlega verður upptaka af fyrirlestrinum komin inná VIMEO þar sem hún verður aðgengileg fyrir félagsmenn/konur/kvár okkar.
0 Comments
APA-legar heimildir og tilvísanir sem eru sérstaklega hannaðar fyrir þjóðfræðinga hafa verið uppfærðar og aðlagaðar til að falla að 7. og nýjustu útgáfu af APA heimildakerfinu. Eins og þið kæru þjóðfræðingar vitið mæta vel þá fellur þetta ágæta heimildakerfi ekki alltaf að okkar þörfum. Auk þess sem við gerum ýtarlegri kröfur um tilvísanir í heimildir en almennt er krafist innan kerfisins. Í APA-heimildakerfinu er þess t.d. ekki krafist að blaðsíðutal heimildar sé skráð í tilvísun nema um sé að ræða beina tilvísun. Innan þjóðfræðinnar er aftur á móti gerð sú krafa að skrá blaðsíðutal heimildar í tilvísunarsvigann.
Við undirritaðar fórum á stúfana og höfðum samband við nokkrar stofnanir sem geyma gögn sem við þjóðfræðingar notumst iðulega við í okkar gagnaöflun til að fá þá í lið með okkur og samræma skráningu á þessum sérstöku heimildum sem falla illa að APA-kerfinu. Í meðfylgjandi skjali finnið þið nýjustu uppfærslu af „sérstökum“ heimildaskráningum sem voru unnar í samvinnu við starfsfólk þessara stofnana. Við mælum með að þið vistið þetta ágæta skjal hjá ykkur og nýtið ykkur uppfærsluna við skráningu heimilda í skrifum ykkar. APA kerfið er lifandi vera sem er í stöðugri þróun og reglurnar ekki meitlaðar í stein heldur er þetta staðan eins og hún er í dag. Við munum gera okkar besta til að uppfæra og viðhalda okkar sérstöku tilvísunum eftir því sem APA-veran þróast, þroskast og dafnar. Skjalið má nálgast hér: apa_Þjóðfræðiáherslur_og_þarfir_2022.pdf Eva Þórdís Ebenezersdóttir, doktorsnemi í þjóðfræði Snjólaug G. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í þjóðfræði og kennari í Vinnulagi Óskum eftir samstarfi vegna Landsbyggðarráðstefnu Félags Þjóðfræðinga á Íslandi haustið 2023!8/28/2022 Stjórn FÞÍ auglýsir hér með eftir aðilum til samstarfs vegna Landsbyggðarráðstefnu Félags Þjóðfræðinga á Íslandi haustið 2023. Við höfum ákveðið að vegna SIEF vorið 2023 sé hentugast að ráðstefnan fari fram að hausti svo að ráðstefnuþyrstir þjóðfræðingar þurfi síður að velja á milli. Því hefur helgin 23. – 24. september 2023 orðið fyrir valinu sem viðmiðunartímasetning fyrir ráðstefnuna.
Nú óskum við eftir umsóknum frá þjóðfræðingum á landsbyggðinni sem vildu gjarnan fá ráðstefnuna í sína heimahaga. Eftir að valið hefur verið úr umsóknum verður skipuð landsbyggðarráðstefnunefnd sem starfar með stjórn FÞÍ að undirbúningi, skipulagi og styrkumsóknum. Við mælum því með að að minnsta kosti tveir þjóðfræðingar sameinist um umsóknir og séu tilbúnir að taka þátt í undirbúningsvinnu með okkur eftir að staður hefur verið valinn. Umsóknarfrestur er til 16. október 2022. Umsókn skal send í tölvupósti á felagthjodfraedinga@gmail.com. Hægt er að hafa samband við okkur ef einhverjar spurningar vakna við gerð umsóknar á sama netfang. Á umsókninni þarf eftirfarandi að koma fram: 1. Umsóknaraðilar. 2. Bæjarfélag þar sem ráðstefnan yrði haldin. 3. Aðstaða. Þar er átt við aðstöðu til ráðstefnuhalds og einnig gistimöguleika á svæðinu. 4. Mögulegir styrkveitendur t.d. uppbyggingarsjóðir, styrkir frá sveitarfélagi, fyrirtæki o.fl. 5. Hugmyndir að afþreyingu utan ráðstefnuhalds s.s. safnaheimsóknir, gönguferðir, skemmtiatriði, matur og menning. 6. Vangaveltur um kostnað. Með þökk og tilhlökkun Stjórn FÞÍ
Hér er yfirlit yfir viðburði og störf félagsins starfsárið 2019-2020 í tilefni af Aðalfundi félagsins í september 2020 sem haldinn var í gegnum fjarfundarbúnaðinn zoom vegna covid19 (mikilvægar samhengis upplýsingar fyrir framtíðar þjóðfræðinga).
Félag þjóðfræðinga hóf starfsárið á Happy hour í september, enda alltaf gaman að hittast og spjalla saman og við játum að við hlökkum til þegar það verður aftur mögulegt að skella sér á gleðistund. Í september voru líka Þjóðfræðigleraugun 2019 þar sem 4 nýútskrifaðir þjóðfræðingar kynntu BA ritgerðir sínar, það var vel sóttur viðburður og vel heppnaður. Í október stóð félagið fyrir MA fyrirlestri og Björk Hólm hélt erindið Upplifun kvenna af öryggi í miðborg Reykjavíkur. Mjög áhugavert umfjöllunarefni. Þá var einnig skipulögð hópferð á listasýninguna ANDSPÆNIS í október þar sem Þrándur Þórarinsson tók á móti okkur en á sýningunni voru myndir hans og Hugleiks Dagssonar innblásnar úr íslenskum þjóðsagnaarfi. Í nóvember byrjun var eftirpartý Þjóðarspegilsins haldið á Skúla Craftbar sem orðið er árviss viðburður. Þá stóð félagið í samstarfi við námsbrautina fyrir fyrirlestri um hátíðir og menningararf í katalóníu og evrópu með Dr. Alessandro Testa og kvikmyndasýningu á myndinni Bosnian Muslim Women’s rituals eftir Catharinu Raudvere. Í desember var svo Jólagleðistund. Eftir áramót stóð til að hefja starfið á Álfagöngu með Bryndísi Björgvinsdóttur en þá tók hver appelsínugula- og rauða veðurviðvörunin við af annari og varð því miður að fresta göngunni. Við hlökkum til að eiga hana inni við gott tækifæri. Þá ákváðum við að skella okkur á janúar gleðistund (sem mér finnst þegar ég skrifa þetta orðnar ansi margar, en sakna þeirra aftur á móti líka). Í febrúar fór félagið í aðra hópferð nú á námskeið í íslenskum þjóðdönsum á Atlavöku. Þorrablótið alræmda var svo haldið með glæsibrag um miðjan febrúar og var vel sótt og mjög vel heppnað, þökkum við þorrablótsnefndinni fyrir störf sín við það! Í mars var viðburðum frestað vegna kórónuveirufaraldursins og MA fyrirlestrum var frestað um óákveðinn tíma. Í mars og apríl tók félagið formlega við veftímaritinu Kreddur og eldra efni var flutt yfir á vef félagsins. Ég nýti tækifærið hér til að hvetja öll sem luma á grein, pistil eða hugleiðingu til að senda inn efni og þakka þeim sem stóðu að tímaritinu á sínum tíma aftur fyrir frábæra framtakssemi og vel unnin störf. Í maí byrjaði félagið svo að nýta sér fjarfundarbúnað af fullum krafti og stóð fyrir fjarbarsvari á zoom sem Alice stjórnaði af mikilli snilli og í júní var rafviðburðurinn Húmor á viðsjárverðum tímum sendur út á zoom þar sem Kristinn Schram flutti erindi og Þórdís Edda Guðjónsdóttir sagði frá facebook hópnum þjóðfræðisöfnun covid-19. Nú á árinu fór líka gríðarleg vinna í undirbúning Landsbyggðarráðstefnu sem til stóð að halda um miðjan maí mánuð og var svo frestað til september og hefði átt að vera núna um helgina, en eins og öllum er kunnugt hafa aðstæður ekki beint verið æskilegar. Landsbyggðarráðstefnan hefur verið skipulögð á Egilsstöðum í samstarfi við Elsu Guðný Björgvinsdóttur og Eyrúnu Hrefnu Helgadóttur hjá Minjasafni Austurlands og hefur mikil vinna verið unnin svo auðvelt er að taka ráðstefnuna upp aftur og stefnum við á það nú aftur næsta vor og vonum innilega að það verði mögulegt. Við þökkum kærlega fyrir árið, þátttökuna og skemmtilegu stundirnar og hlökkum til að hittast fljótlega, rafrænt og í persónu! Aðalfundur Félags þjóðfræðinga á Íslandi verður haldinn fimmtudaginn 17. september kl. 18:00.
Athugið að fundurinn verður einungis rafrænn og fer fram í gegnum fjarfundarforritið zoom. Á fundinum verður meðal annars farið yfir starf félagsins síðasta árið og sagt frá því sem er framundan. Kosið verður í ritstjórn Kredda fulltrúa MA nemenda og útskrifaðra. Samkvæmt lögum félagsins er einnig komið að því að kjósa í stöður formanns og meðstjórnanda og tvo varamenn. Framboð í öll þessi embætti er hægt að senda inn á netfang félagsins felagthjodfraedinga@gmail.com Eftir það verður orðið gefið laust fyrir allskonar umræður um þjóðfræði, félagið og önnur skemmtilegheit. Kristinn Schram flytur erindið: „Ertu búinn að spritta á þér fokking hendurnar, Einar Áskell?“ Húmor á viðsjárverðum tímum
Á dögum kórónuveirunnar er gríni dreift um samfélagsmiðla sem aldrei fyrr. Húmor á viðsjárverðum tímum hefur lengi verið viðfangsefni þjóðfræðinga. Sem dæmi hafa stórslys, hryðjuverk og efnahagshrun öll verið umfjöllunarefni í vægðarlausum „gálgahúmor“. Þjóðfræðingar greina það stundum sem leið til að verjast eða losa um erfiðar eða bældar tilfinningar. Í þessum fyrirlestri fjallar Kristinn Schram, dósent í þjóðfræði, um það hvernig alþýðlegt, og stundum óheflað, grín er notað til að orða og deila erfiðri reynslu og koma böndum á furðulegar aðstæður. Þórdís Edda Guðjónsdóttir mun svo segja frá facebook hópnum Þjóðfræðisöfnun - covid 19 þar sem rúmlega 1000 manns safna bröndurum og öðru þjóðfræðiefni tengdu veirunni. Slóð á viðburðinn verður sett inn hér og á Facebook síðu félagsins klukkan 17:55 samdægurs. https://eu01web.zoom.us/j/68168796527 Hvernig var upplifunin af doktorsnáminu og svo vörninni?
Upplifunin af doktorsnáminu spanar heilan áratug og allan tilfinningaskalann. Það er í raun mjög erfitt að lýsa því í stuttu máli. Nú þegar gráðan er komin í hús er heilinn á fullu við að endurtúlka þann tíma sem leiddi fram að vörninni. Á þessu tímabili fluttist ég líka til Svíþjóðar, lærði nýtt tungumál, eignaðist tvíbura og fór frá 0 yfir í 8 sneiðar af hrökkbrauði á dag. Þetta var bæði menningar- og trefjasjokk. Vörnin var auðvitað tæknilegt þrekvirki út af fyrir sig, þvílík Hollywood framleiðsla! Vörninni var stjórnað frá Háskóla Íslands, ég varði í Lundi, Svíþjóð og andmælendurnir voru staddir í Þýskalandi og Noregi. En þetta gekk alltsaman ótrúlega vel og ég er mjög sáttur við að klára. Hvað ætlarðu að gera næst? Næst ætla ég að borða enn meira hrökkbrauð og sækja um nýdoktorastyrk. Næsta verkefni mun fjalla um samlífi gerla og manna í allri sinni nánd, dauða og dýrð. Hver eru þín helstu áhugamál? Írónía (við getum ekki öll spilað golf), Thai box og kaffi. Hefurðu einhverja hjátrú sem þú brýtur aldrei gegn? Ég þvæ mér alltaf um hendurnar áður en ég fer í skriflegt próf. Það er fyrst núna á kórónutímum sem það breytist úr að vera furðulegt yfir í að vera ábyrgt og skynsamlegt.
Þótt heimildir séu fámálar er líklegt að Íslendingar hafi alltaf haldið til dagsins í mat og drykk eftir efnum og ástæðum. Sumargjafir eru þekktar frá 16. öld og eru miklu eldri en jólagjafir. Ekki var unnið nema nauðsynjastörf eða táknræn sumarstörf, og hafa börn nýtt daginn til leikja. Víða var messað á sumardaginn fyrsta til miðrar 18. aldar en húslestrar héldust mun lengur. Samkomur hefjast í sveitum og bæjum seint á 19. öld. Eftir aldamót tengjast þær ungmennafélögum, en frá þriðja áratugnum hefur dagurinn verið helgaður börnum með skrúðgöngum, skemmtunum og útgáfustarfi. Fyrsti “barnadagurinn” var í Reykjavík árið 1921. Ýmis þjóðtrú tengist sumarkomu, og er meðal annars talið vita á gott ef sumar og vetur “frýs saman” aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Þegar maður sá fyrsta tungl sumars átti hann að steinþegja þar til einhver ávarpaði hann. Úr ávarpinu mátti lesa véfrétt, og hét þetta að láta svara sér “í sumartunglið” (Árni Björnsson, Saga daganna, 2007:31). Þó að samkomur séu ekki leyfilegar þessa stundina er allavega kjörið að gera vel við sig í mat og drykk, splæsa í sumargjöf og hlusta eftir spádómum um komandi tíma þegar ykkur er svarað í sumartunglið.
Okkur þykir miður að tilkynna að vegna takmarkana á samkomuhaldi sem yfirvöld hafa sett vegna Covid19 hefur verið ákveðið að fresta Landsbyggðarráðstefnunni, sem átti að fara fram helgina 13.-15. maí á Egilsstöðum, til haustsins. Nánari tímasetning verður auglýst við fyrsta tækifæri. Við vonumst til að þið sjáið ykkur sem allra flest fært að mæta þá.
|
Félag þjóðfræðinga á ÍslandiHér má finna allskonar skemmtilegar fréttir um viðburði, þjóðfræðinga, þjóðfræði og hvað sem er. Ef ykkur langar að koma einhverju á framfæri má senda fréttatilkynningar á felagthjodfraedinga@gmail.com |